CNN skýrir frá þessu og segir að Wallace hafi sagt að Rússar hafi ekki náð neinum af markmiðum sínum með innrásinni. Þeir hafi misst mikið af búnaði og mannskap í stríðinu. Talið er að rúmlega 25.000 rússneskir hermenn hafi fallið og að í heildina hafi rúmlega 80.000 Rússar fallið, særst, verið teknir til fanga eða gerst liðhlaupar.
Wallace sagði að Pútín noti orku (gas) sem vopn og hvatti þingmenn til að ræða stöðu mála við kjósendur sína. Hann sagðist telja það mikilvægt að ræða við kjósendur um að nú séu mjög erfiðir tímar sem séu afleiðing þess sem einræðisstjórnin í Rússlandi sé að gera. Hún reyni meðvitað að valda tjóni og láti reyna á hvort fólk vilji kasta gildum sínum fyrir róða í staðinn fyrir orku.