Að undanförnu hafa miðar, þar sem yfirburðum hins hvíta norræna manns er hampað, verið límdir upp á nokkrum stöðum á Norðurlandi. Á þeim er einnig tekin afstaða gegn samkynhneigðum. Á sumum miðanna er græn ör en hún er merki samnorrænnar nýnasistahreyfingar.
Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Jóhanni Helga Heiðdal, sem starfar hjá Háskólanum á Akureyri, að honum hafi brugðið í brún við að sjá þessa miða með merki samnorrænnar nýnasistahreyfingar.
Fréttablaðið segist hafa upplýsingar um að miðar af þessu tagi hafi verið límdir upp í Reykjadal í Þingeyjarsveit og á Húsavík.
Á einum miðanum er vísað á heimasíðu Norrænu mótstöðuhreyfingarinnar, Norðurvígi, en hún er vistuð í Svíþjóð.
Eyrún Eyþórsdóttir, lektor í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri og sérfræðingur í hatursglæpum, sagði í samtali við Fréttablaðið að engin spurning sé um að Norðurvígi sé hluti af samnorrænni nýnasistahreyfingu. „Þetta eru nýnasistar, það er engin spurning, þannig fjalla fræðin um þetta. Við erum að tala um forræðishyggju sem stendur vörð um hvíta kynstofninn, að hann byggi á menningarlegum arfi, sem stenst ekki skoðun,“ sagði hún.