María Guðmundsdóttir Toney, fyrrum landsliðskona á skíðum og margfaldur Íslandsmeistari í alpagreinum, er látin eftir baráttu við krabbamein. RÚV greinir frá andláti hennar í dag.
María var 29 ára gömul þegar hún lést. Um síðustu jól þurfti María að leggjast inn á spítala vegna mikilla verkja sem hún fann fyrir í flugi þegar hún var á leiðinni frá Lillehammer til Keflavíkur. Hún átti að fara í annað flug skömmu síðar en hugsaði með sér að hún yrði að fara á sjúkrahús. Síðar greindist hún með afar sjaldgæft krabbamein í milta.
Fyrir nokkrum árum síðan neyddist María til að hætta að skíða vegna þrálátra meiðsla. Síðasta haust hóf hún doktorsnám í sjúkraþjálfun í fylkinu Oregon í Bandaríkjunum en þar bjó hún ásamt Ryan Toney, eiginmanni sínum.
María verður jarðsungin frá Akureyrarkirkju þann 16. september næstkomandi klukkan 13.