Segja má að Íris Björg Þorvaldsdóttir, sem ein síns liðs hóf menningarstríð við danska sælgætisframleiðandann Bülow um uppruna súkkulaðihjúpaðs lakkrís, hafi unnið fullnaðarsigur fyrir föðurland sitt þegar forsvarsmenn fyrirtækisins buðu henni og fjölskyldu hennar í opinbera heimsókn í höfuðsstöðvar fyrirtækisins í Danmörku í gær. Þar voru sverðin formlega slíðruð og lofar danski sælgætisframleiðandinn bót og betrun enda hugmyndin sannarlega komin frá Íslandi þrátt fyrir að Danirnir hafi vissulega búið til frábæra útgáfu eftir sínu höfði.
Flestir lesendur fréttamiðla hafa eflaust orðið varir við þetta menningarstríð sem Íris Björg Þorvaldsdóttir hóf á síðum DV í síðustu viku. Íris, sem búsett hefur verið í Danmörku árum saman, rak augun í vafasamar fullyrðingar á heimasíðu sælgætisframleiðandans um að hugmyndin af góðgætinu hafi fæðst þar og greip til sinna ráða.
„Þá rek ég augun í texta þar sem fram kemur að árið 2009 hafi Bülow og Tage, framleiðslustjóri fyrirtækisins, „udviklet“, það er þróað hugmyndina af súkkulaðihjúpuðum lakkrís. Það var tekið sérstaklega fram að á þessum tíma hafi verið haldið að það væri ómögulegt, en að þarna hafi fæðst ein vinsælasta vara fyrirtækisins: A – The original. Mér fannst þetta athyglisvert í ljósi þess að ég ólst upp við að borða súkkulaði húðaðann lakkrís á Íslandi. Þrátt fyrir að ég væri ekki viss um að íslendingar hafi verið fyrstir í heiminum til að gera þetta, þá var ég viss um að Bülow var langt á eftir Íslendingum og mér fannst hann vera að skreyta sig með stolnum fjöðrum,“ sagði Íris.
Fyrirtækið brást við fyrirspurn Írisar með að aðlaga textann á heimasíðu sinni. Ekki var þó minnst á Íslandi í nýja textanum heldur var honum breytt á þá leið að forsvarsmenn Bülow sögðust fyrstir hafa fengið þá hugmynd að blanda saman gæðasúkkulaði og úrvalslakkrís.
Eftir fréttina á DV hefur málið fengið mikla umfjöllun hérlendis og segir Íris að það hafi komið sér á óvart en samt ekki. „Íslendingar eru mjög duglegir að verja það sem þeim finnst vera þeirra,“ segir Íris og er hún sjálf gott dæmi um það. Hún hafi fundið hjá sér þörf til að leiðrétta að Íslendingar hafi verið á undan Dönum með hugmyndina. „Ég ætla þó ekki að fullyrða að við höfum verið fyrst í heiminum til þess. Ég fékk ábendingar um fyrirtæki í Ástralíu sem hefði framleitt slíka vöru í einhver 90 ár. En við vorum að minnsta kosti á undan Dönum,“ segir Íris kímin.
Hún segir að eftir fjölmiðlastorminn í síðustu viku hafi Tage Vedsted Kusk, framleiðslustjóri fyrirtækisins, haft samband við sig og boðið sér og fjölskyldu sinni í heimsókn í höfuðsstöðvar fyrirtækisins sem Íris þáði með þökkum. „Þetta var mjög áhugaverð og skemmtileg heimsókn og það var afar vel tekið á móti okkur. Tage hefur verið hjá fyrirtækinu síðan 2007 þegar vöruþróunin með lakkrísinn hófst og þeir hafa gert mjög flotta hluti. Til að mynda geta þeir sem eru með glútenofnæmi borðað Bülow-lakkrís en það gildir ekki um íslenska lakkrísinn,“ segir Íris.
Að hennar sögn var upplifunin þó nokkuð sérstök enda voru starfsmenn fyrirtækisins greinilega meðvitaðir um hver væri þarna á ferðinni. „Einn í framleiðsluferlinu spurði mig – „Er du Iris? Hende som skrev?“ og bætti svo við að starfsmönnum hafi verið tilkynnt að von væri á komu minni og margir hefðu verið taugaóstyrkir vegna þess,“ segir Íris og hlær af þeirri tilhugsun að hún hafi verið orðin einhvers Lakkrís-Grýla í augum starfsmanna. „Kannski bjuggust þeir við einhverri algjörri skessu sem kæmi og yrði með dónaskap og læti,“ segir Íris og fullvissar blaðamann um að um afar vinalega kurteisisheimsókn hafi verið að ræða.
„Tage var mjög vingjarnlegur og með góða kímnigáfu. Hann sagði frá því þegar að hann hafði búið á Íslandi og var einmitt síðast í heimsókn fyrir 5 árum síðan. Hann var eins og alfræðiorðabók um allt sem kom að lakkrís og við fengum líka að bragða nýbakaðan og heitan lakkrís, niðurkældan, allskonar brögð og auðvitað súkkulaðihjúpaðan lakkrís. Við sáum líka heimsins minnstu lakkrísvél sem þeir þróuðu sjálfir og ég hitti starfsmanninn (Marcus) sem hafði einmitt svarað fyrstu fyrirspurnunum frá mér. Ég sagði við hann að við Íslendingar yrðum jú að leiðrétta það sem mætti fara betur, þetta væri jú svolítið þjóðarstoltið sem spilaði inn þarna og hló bara. Hann var alveg jafn viðkunnalegur og hann hafði verið bak við tölvuna,“ segir Íris.
Að hennar sögn óttaðist hún í nokkrar sekúndur að ný milliríkjadeila myndi kvikna eftir óheppilegt „voðaskot“ dóttur sinnar.
„Elsta dóttir mín var mjög hrædd um að heimsóknin yrði afar pínleg og vandræðaleg. Þegar við vorum svo að ræða málin um uppruna lakkrísins var hún að leika sér með hárteygjuna sína og endaði með að skjóta henni óvart beint í andlit starfsmann sem var í miðri frásögn. Sú tók þetta sem betur fer ekki persónulega enda sagði eldrautt andlit dóttur minnar allt,“ sagði Íris og hlær.
Hún segir að Tage hafi beðist afsökunar á því að ekki hafi verið minnst á Íslandi varðandi vöruþróun Bülow-lakkrisins enda hugmyndin sannarlega fengist þaðan. Því yrði breytt á næstunni á heimasíðunni.
„Þeir þurfa þá að breyta honum inni í verksmiðjunni líka þar sem þessi texti er til dæmis á vegg inni í fyrirtækinu. Í kynningargögnum segja þeir líka að The Original A sé vinsælasta varan og fyrirtækið eiginilega byggt mikið á því. Ég vona að þeir breyti líka þar sem það stendur að það hafi verið talið ómögulegt að súkkulaðihjúpa lakkrísinn, en þeim hafi tekist það, því Blow hefur gert svo mikið annað gott sem þeir geta lagt ríka áherslu á eins og að hugsa mikið inn sjálfbærni og til dæmis styðja beint við lakkrísbændur í Afganistan,“ segir Íris.