Upptaka, sem hefur gengið á samfélagsmiðlum, sýnir bíl ofurstans í ljósum logum örskömmu eftir að sprengjan sprakk.
Igorevich var fluttur á sjúkrahús í skyndinu en lést þar af völdum áverka sinna að sögn Yaroslav Trofimov, fréttamanns Wall Street Journal, sem hafði það eftir talsmönnum rússneska hernámsliðsins í Zaporizhzhia.
Síðar sagði talsmaður hernámsliðsins í samtali við Gazeta Russiya að Igorevich væri enn á lífi og berðist fyrir lífi sínu.
Í kjölfar sprengingarinnar brutust skotbardagar út í borginni að sögn The Sun. Á myndbandsupptökum má heyra skothríð í borginni.
Úkraínumenn hafa ekki lýst yfir ábyrgð á bílsprengjunni en almennt er talið að sveitir, hliðhollar Úkraínumönnum, hafi staðið á bak við hana.
Þetta er ekki fyrsti Rússinn eða samstarfsmaður þeirra sem deyr af völdum bílsprengju. Í ágúst lést Ivan Sushko, sem starfaði með rússneska hernum og hafði verið útnefndur embættismaður í Zaporizhzhia, þegar sprengja sprakk undir bíl hans.
Í ágúst fannst úkraínskur lögreglustjóri hengdur í austurhluta landsins. Úkraínumenn hafa ráðið fjölda embættismanna á hernámssvæðunum af dögum á síðustu vikum.