„Ég hef ákveðið að breyta um kúrs í lífinu,“ segir Brynjar Níelsson, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, í færslu sem hann birti á Facebook-síðu sinni í kvöld. „Nú ætla ég að leggja neikvæðnina til hliðar og vera jafnvel jákvæður enda ekki seinna vænna þegar maður er kominn á sjötugsaldur.“
Þessi lífsbreyting sem Brynjar boðar er nokkuð stór þar sem hann hefur verið tíður gestur á forsíðum fjölmiðla undanfarin ár, ekki síst vegna neikvæðra skoðanapistla sem hann birtir reglulega á Facebook-síðu sinni. Hann hefur hjólað reglulega í ýmsa aðila úr íslensku samfélagi, allt frá þingmönnum og yfir í uppistandara.
Eflaust veltir eitthvað fólk fyrir sér hver ástæðan er fyrir þessari ákvörðun Brynjars en hann segir frá því í færslunni. „Kveikjan að þessari viðhorfsbreytingu er sú að ég hef verið tíður gestur á Landspítalum í heilt ár og var þar síðast í morgun,“ segir hann.
„Þar er þjónustan alltaf til fyrirmyndar þótt annað mætti halda miðað við umræðuna í samfélaginu Starfsmenn jákvæðir, hlýlegir og glaðlyndir og skiptir greinilega ekki máli hvers konar sjúkling þeir eru með í höndunum. Hjúkrunarfræðingurinn sem hélt í höndina á mér í morgun var svo hlýleg og góð að ég varð allt að því ástfanginn af henni.“
Brynjar segir að nú ætli hann að „láta af öllum skætingi og leiðindum“ á Facebook. „Líka við sósíalista, frjálslyndu umbótaöflin og fjölmiðlamenn. Það verður erfitt en ég hef ráðið mér meðferðarfulltrúa, sem hefur hjálpað mörgum að kljást við eitraða karlmennsku,“ segir Brynjar.
„Hann telur að ég geti losnað við neikvæðnina en ég verði samt alltaf leiðinlegur í grunninn. Það þyrfti kraftaverkamann til að laga það. Það er hætt við því að ekki verði margar færslur í framtíðinni fyrir utan deilingar á góðu efni annarra og myndir af fjölskyldunni. Þó er sennilega ekki óhætt að birta myndir af Gústa bróður. Það gæti móðgað einhverja.“