Karlmaður á sextugsaldri hefur verið ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni en í ákærunni, sem DV hefur undir höndum, segir að hann hafi hótað einstaklingi sem hafði kært vin mannsins. Sú kæra leiddi til þess að höfðað var sakamál á hendur vinarins.
„Eitt skal ég segja þér og það er að ég og mínir félagar sem eru nú flestir búnir að sitja í fangelsi fyrir morð og ýmislegt ljótt við vitum hver þú ert og við vitum líka um hestana þína svo þú ættir að hugsa þig aðeins um hvað þú ert að gera gömlum manni,“ er maðurinn sem er ákærður sagður hafa sagt í skilaboðum sem send voru í samskiptaforritinu Messenger.
Þessar hótanir eru taldar varða við fyrstu málsgrein 108. grein almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Það er að hver sem beitir annan mann eða nána vandamenn hans eða aðra honum tengda líkamlegu ofbeldi, ólögmætri nauðung eða hótun skv. 233. gr. vegna skýrslugjafar hans hjá lögreglu eða fyrir dómi skal sæta fangelsi allt að 6 árum eða sektum ef sérstakar málsbætur eru fyrir hendi.
Það er því ljóst að maðurinn á yfir höfði sér allt að 6 ára fangelsi. Í ákærunni kemur fram að þess sé krafist að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.