Í gærkvöldi skapaðist mikil reiði í Facebook-hóp íbúa í Langholtshverfi, 104 Reykjavík, en reiðina mátti rekja til sprenginga á flugeldum. Fljótlega eftir að flugeldasýningin hófst birti íbúi í hverfinu færslu í hópnum um flugeldana. „Flugeldar núna? Í alvörunni?!?!“ sagði íbúinn í færslunni.
Skömmu síðar birti sá sem bar ábyrgð á flugeldunum færslu í hópnum. „Er að sprengja kvartanir í comments. Var að gifta mig,“ sagði maðurinn í færslunni. Einhverjir í hópnum óskuðu manninum til hamingju með giftinguna en aðrir létu það engu skipta og létu í ljós óánægju sína með flugeldana. Kona nokkur talaði til að mynda um að hún hafi átt erfitt með að svæfa börnin sín vegna hávaðans.
Flugeldarnir áttu þó eftir að reynast örlagaríkari en svo að nokkur börn í hverfinu náðu ekki að sofna. „Kæru nágrannar, flugeldapartíið í Skipasundinu endaði með líkamsárás,“ segir nefnilega maður nokkur í annarri færslu um klukkustund síðar. „Ég væri mjög þakklátur ef þau ykkar sem urðu vitni að þessu gætu gefið sig fram við lögreglu sem vitni.“
DV ræddi við manninn sem birti færsluna um líkamsárásina og útskýrir hann nánar sína hlið á sögunni. Hann segir að nokkur vitni hafi orðið að árásinni og að hann sé staðfastur á því að þau myndu segja sömu sögu og hann, ef eitthvað þá sé hann of vægur í sinni frásögn. „Þetta er bara sannleikurinn eins og hann er og ef þú talar við vitni þá munu þau, ef eitthvað er, segja þér ljótari sögu af hinni hliðinni en ég er að gera,“ segir hann.
„Raunveruleikinn er að það var harkaleg flugeldasýning í gærkvöldi í Skipasundi, án leyfis. Það hringdu nokkrir nágrannar í lögregluna, ég asnaðist ekki til að gera það heldur fór út og spurði þau hvort þau áttuðu sig á því að það væri ólöglegt að skjóta upp flugeldum á þessum tíma, bara hvað þau væru að hugsa,“ segir maðurinn í samtali við blaðamann.
Hann segir að sprengiglöðu nágrannarnir hafi þá svarað sér með skætingi. „Þau litu á hvert annað og sögðu: Já er þetta fávitinn þarna í húsinu hinum megin. Ég benti þeim á að það væri ekkert í lagi að haga sér svona í samfélagi með öðru fólki og hvaðan þau væru eiginlega, Raufarhöfn? Þá pikkaði annað vitni í mig og sagði að Raufarhöfn væri fín og þá snéri ég mér kurteisislega við og baðst afsökunar,“ segir maðurinn.
„En um leið og ég hafði látið þetta út úr mér þá kom maðurinn alveg í andlitið á mér, potandi í mig, hótandi mér ofbeldi. Ég viðurkenni að það fauk í mig þá og ég svaraði honum að ef hann réðist á mig þá færi það ekki vel hjá honum. Ég hótaði honum ekki ofbeldi, bara að ef hann stofnaði til ofbeldis þá yrði það ekkert skemmtilegt. Ég ýtti honum síðan frá mér þannig að hann tók skref aftur á bak, athugaðu skref, hann kastaðist ekki, hann datt ekki og ekki neitt. Ég vildi bara ekki hafa manninn í mér hótandi mér ofbeldi. Við það réðist tengdasonur hans á mig með höggum og spörkum.“
Maðurinn segir að það hafi ekki komið neinar viðvaranir frá tengdasyninum, bara högg og spörk. „Ég kom mér í burtu vegna þess að ég var ekki að fara að slást við nokkurn mann, ég sló aldrei né sparkaði til nokkurs manns. Það eina sem hægt er að segja að ég hafi gert er að ég ýti manninum frá mér með annarri hendi þegar hann er kominn í andlitið á mér hótandi mér ofbeldi. Ég forða mér í burtu, við það kemur húsfreyjan og hendir bjórglasi í mig, bjórinn endar í andlitinu á mér og glasið á líkamanum mínum,“ segir hann.
„Þau voru drukkin og það sem ég vissi ekki og það sem gerir þetta svo sorglegt er að þetta var víst brúðkaup, á mánudegi, með ólöglegri flugeldasýningu.“
Þá lýsir maðurinn líkamsástandi sínu eftir árásina. „Ég er núna með marbletti og er bólginn í andlitinu, líklega með brotið upp úr tönn. En ég er nokkuð örugglega ekkert brotinn, ég er krambúleraður frekar en slasaður,“ segir hann.
Hann segir að nýgiftu hjónin hafi ekki bara brugðist illa við sér heldur líka við öðrum nágrönnum sem ræddu við þau. „Viðbrögðin við nágrönnunum þegar þau gerðu athugasemdir, það voru bara móðganir og skítkast – það snéri ekki bara að mér. Svo endar þetta á líkamsárás,“ segir hann.
„Ef þau hefðu bara sagt „við vorum að gifta okkur, við biðjumst afsökunar á látunum“ þegar ég spurði þau hvað þau væru eiginlega að hugsa að vera með ólöglega flugeldasýningu, þá hefði ég óskað þeim til hamingju og labbað heim. Þó svo að ég hefði vissulega verið nett pirraður að þau hafi ekki tilkynnt þetta.“
Maðurinn ítrekar svo að hann hafi ekki beitt neinn á svæðinu ofbeldi og tekur auk þess fram að hann hafi aldrei verið kærður á ævinni. „Aldrei, ég sló hvorki né sparkaði í nokkurn mann þarna – sem öll vitni munu staðfesta.“