fbpx
Miðvikudagur 24.júlí 2024
Fréttir

Skáksamfélagið nötrar: Heimsmeistarinn Carlsen hætti í miðju móti og hávær orðrómur um svindl

Björn Þorfinnsson
Mánudaginn 5. september 2022 19:18

Magnus Carlsen Mynd/FIDE

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Óhætt er að fullyrða að alþjóða skáksamfélagið nötri þessa stundina eftir þá ákvörðun Magnusar Carlsen, ríkjandi heimsmeistara, að hætta í miðju Sinquefield-skákmótinu sem fram fer í St. Louis í Bandaríkjunum. Um er að ræða eitt sterkasta skákmót ársins en afar fágætt er að sterkustu skákmenn heims dragi sig úr mótum. Í tilfelli Carlsen er það nánast óþekkt og því hefur ákvörðun hans vakið gríðarlega athygli.

Carlsen átti að tefla við ofurstórmeistarann Shakriyar Mamedyarov frá Aserbaísjan í 4.umferð mótsins en rétt áður en hún átti að hefjast, fyrir tæpri klukkustund, greindi heimsmeistarinn frá því að hann hyggðist ekki mæta til leiks. Skákklukkan var því sett í gang í upphafi skákar og 10 mínútum síðar var sigur Mamedyarov formlega staðfestur.

En það sem setti allt á hliðina var tíst Carlsen sem birtist um svipað leyti og umferðin átti að hefjast.

Þar tilkynnti Norðmaðurinn að hann hefði ákveðið að draga sig úr mótinu. Hann hefði alltaf notið þess að tefla í mótinu og vonaði innilega að hann myndi eiga afturkvæmt. Lokahnykkurinn var síðan sá að hann birti frægt viðtalsbrot við Jose Mourinho þar sem þjálfarinn sagðist ekki geta tjáð sig því þá væri hann í vandræðum.

Forsaga málsins er sú að í gær urðu mikil tíðindi á mótinu þegar Carlsen tapaði skák sinni gegn Bandaríkjamanninum Hans Niemann. Niemann, sem er tæpum 200 stigum lægri en Carlsen á alþjóðlega stigalistanum, rauf þar með 53 skáka taplausa hrinu heimsmeistarans. Úrslitin vöktu mikla athygli ekki síst fyrir þær sakir að Bandaríkjamaðurinn gjörsamlega yfirspilaði Norðmanninn þrátt fyrir að stýra svörtu mönnunum. Carlsen og Niemann voru efstir í mótinu fyrir skákina, báðir með 1,5 vinning af 2 mögulegum og því tók Bandaríkjamaðurinn forystuna í hinu ógnarsterka móti með sigrinum.

Helstu skákfjölmiðlar heims eru nú farnir að greina frá því að heimsmeistarinn gruni ónefndan skákmann á mótinu um að hafa svindlað með einhverjum hætti og hafi komið þeirri skoðun sinni á framfæri við mótshaldara. Dylst engum að áskanirnar beinast gegn Niemann sem hefur farið með himinskautum undanfarið og á skömmum tíma skipað sér í hóp sterkustu skákmanna heims.

Í frétt Chess24 er greint frá því að beinni útsendingu skákanna í umferð dagsins hafi verið seinkað um 15 mínútur þó að skákmennirnir sjálfir tefli í rauntíma. Það er yfirleitt gert til að koma í veg fyrir svindl. Þá kemur einnig fram að eftirlit á skákstað hafi verið hert og meðal annars leitað ítarlega á þátttakendum fyrir umferð dagsins. Í fréttinni er svo birt mynd af skákdómara að leita á Niemann með málmleitartæki.

Eftirlit hefur verið hert á mótsstað en hér má sjá skákdómara leita á umræddum Hans Niemann með málmleitartækið

Þá hefur neðangreint tíst vakið mikla athygli en þar er birt myndband af því þegar Niemann, sem iðulega streymir til aðdáenda sinna þegar hann teflir á netklúbbum, er settur í bann á stærsta skákþjóni veraldar, Chess.com. Þá er því einnig haldið fram að það sé ekki í fyrsta sinn sem slíkt gerist og að sterkustu skákmenn heims gruni Bandaríkjamanninn um græsku.

Ljóst er að ákvörðun Carlsen um að draga sig úr mótinu mun hafa gríðarleg áhrif næstu daga en á samfélagsmiðlum má einnig heyra háværar raddir um að heimsmeistarinn sé einfaldlega tapsár og sé að bregðast við eins og Bobby Fischer, sem var frægur fyrir að skaprauna mótshöldurum og skákáhugamönnunum með furðulegum uppákomum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Kvennaathvarfið nýtir gervigreind í nýrri vitundarvakningarherferð

Kvennaathvarfið nýtir gervigreind í nýrri vitundarvakningarherferð
Fréttir
Í gær

Holskefla ofbeldisbrota gagnvart börnum gæti skýrst af kórónuveirufaraldrinum

Holskefla ofbeldisbrota gagnvart börnum gæti skýrst af kórónuveirufaraldrinum
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Solaris fordæma ummæli Helga

Solaris fordæma ummæli Helga
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Leiðrétting og afsökunarbeiðni

Leiðrétting og afsökunarbeiðni