fbpx
Föstudagur 27.desember 2024
Fréttir

Ósáttir gestir komust ekki inn á Ljósanæturballið og voru við það að troðast undir – „Ég hef ekkert að fela“ segir Óli Geir

Máni Snær Þorláksson
Mánudaginn 5. september 2022 11:36

Myndin er samsett - Tómas er til vinstri en Óli er til hægri

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Síðastliðinn laugardag var Ljósanæturballið haldið í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ. Óhætt er að segja að ekki hafi allt gengið smurt fyrir sig á þessu balli þar sem mikill fjöldi fólks með miða á ballið komst ekki inn í tæka tíð. Dæmi eru um að fólk með miða hafi beðið í um tvo klukkutíma í röð og endað á því að þurfa að fara heim eftir að húsinu var lokað.

Í Facebook-hópnum Reykjanesbær – Gerum góðan bæ betri myndaðist mikil umræða um ballið í gær. „Alltof margir miðar seldir og stór hópur fólks komst ekki inn. Voru einhverjir að upplifa þetta?“ spurði maður nokkur eftir að dóttir hans fór heim með sárt ennið. „Hef heyrt að mjög illa hafi verið að þessu staðið. Held að margir eigi kröfu á endurgreiðslu,“ segir maðurinn enn fremur og tekur mikið af fólki undir með honum.

„Við vorum vinahópur saman, biðum í einn og hálfan tíma í röð sem haggaðist ekki. Enduðum á því að gefast upp og fara bara heim. Kvöldið ónýtt og allir ósáttir hefðum alveg getað komist inn á endanum en helmingurinn var búinn af tónleikunum og okkur fannst það ekki þess virði að bíða svona lengi og ná bara síðustu 30-60 mínútunum af tónleikunum. Við ætlum öll að senda email á þann sem sá um þetta og heimta endurgreiðslu. Hvet alla sem lentu í þessu að gera það líka,“ segir til að mynda ein ung kona í athugasemdunum við færsluna.

Önnur kona segir þá frá sinni reynslu af ballinu. Hún segist hafa mætt á svæðið klukkan 00:45 og farið aftast í röðina en hún hafi ekkert haggast. „Við förum svo framar til að sjá hvað er að gerast og þá segja allir að það sé búið að loka. Við kíktum inn i gluggana og sáum marga koma grenjandi inn út af troðning,“ segir konan sem furðar sig á því að lögreglan hafi ekki gert neitt í málinu.

„Skil líka ekki lögregluna að gera ekkert, þær stóðu bara og gerðu ekkert. Skil ekki af hverju það voru ekki takmarkaðir miðar eða eitthvað reynt að gera því þetta var aldrei að fara ganga og til að taka það fram þá var miðinn að kosta 6000kr !!!! Og fólk komst ekki inn og ef það komst inn þá voru margir búnir að missa af helmingnum af ballinu. Eg hvet alla að heimta um endurgreiðslu því þetta er ekki í lagi!!“

„Ég ætla bara að fá að ljúka þessu símtali takk“

Umræðan í athugasemdunum beinist fljótt að þeim sem hélt ballið en viðburðarhaldarinn var athafnamaðurinn Óli Geir.  Þá var því einnig haldið fram að of margir miðar hafi verið seldir

DV hafði því samband við Tix, sem sá um miðasöluna fyrir ballið, til að fá upplýsingar um framkvæmd miðasölunnar. Þar var þó fátt um svör og vekur sérstaka athygli að fyrirtækið vildi alls ekki staðfesta hver hefði skipulagt viðburðinn sem lá þó fyrir.

„Þetta eru trúnaðarupplýsingar, við megum ekki gefa neitt út hvað voru margir miðar seldir eða þess háttar,“ sagði starfsmaður Tix í samtali við blaðamann. Þá spurði blaðamaður hvort hægt væri að gefa það upp hvort einhver væri búinn að sækjast eftir endurgreiðslu en fékk ekki heldur svör við því.

„Ég ætla bara í raun og veru að vera með sem minnsta ábyrgð og segja ekkert í þessu máli, því miður.

Geturðu þá bent mér á þann sem var að halda viðburðinn, svo ég geti rætt við hann?

„Mér finnst mjög ólíklegt að sá aðili muni svara þér einhverju þannig ég held að þú munir ekki fá neitt út úr því. Í fullri hreinskilni þá finnst mér mjög ólíklegt að þú munir ná í hann.“

Geturðu sagt mér hver hann er?

„Ég ætla bara ekki að tjá mig um þetta, ég ætla bara að fá að ljúka þessu símtali takk,“ sagði starfsmaðurinn svo að lokum og skellti á.

Óli Geir segist ekki hafa neitt að fela

Þrátt fyrir efasemdir starfsmanns Tix þá náði blaðamaður tali af skipuleggjandanum, Óla Geir. „Ég skal vinna þetta með þér,“ segir Óli Geir þegar blaðamaður spyr hann út í viðburðinn. „Ég hef ekkert að fela.“

Óli Geir segir þá að vandræðin hafi skapast vegna undirmannaðrar gæslu en að gæslan hafi ekki verið á hans vegum. „Við skulum hafa þetta bara allt upp á 10. Sá sem heldur ball í Hljómahöll í Reykjanesbæ leigir salinn með gæslu af Hljómahöll, Venue Security sér um gæslu, ég kem ekki nálægt henni. Ég ætla ekki að hafa þetta þannig að ég sé að benda á einhvern annan, ég vil það ekki, en gæslan kemur mér ekki við – ég sé ekki um hana, Hljómahöll sér alveg um hana,“ segir Óli Geir.

„Þetta ball er búið að vera í 13 ár og þetta er 1000 manna ball. Það sem að gerist er að Hljómahöll er með undirmannaða gæslu, það er bara þannig, og þú mátt hringja í þá, þeir geta örugglega gefið sína hlið á því. Við vorum sjálfir vitni að þessu, við vorum bara að spila og það er ennþá röð fyrir utan og við skiljum ekkert hvað er í gangi. Þeir voru bara örfáir í hurðinni og það hægist náttúrulega þá á öllu. Það er ekki það að það hafi verið eitthvað of margir, það er alltaf það sama, röðin bara haggaðist ekki í klukkutíma eða eitthvað. Þeir eru að spyrja alla um skilríki og allt þetta, gengur allt mjög hægt fyrir sig. Þannig að það voru einhverjir sem biðu of lengi í röð. Svo allt í einu tóku þeir upp á því að loka húsinu á einhverjum ákveðnum tímapunkti, hleypa ekki fleirum inn – örugglega bara til að róa einhvern æsing, en þú gerir það náttúrulega ekki, þá æsast bara fleiri. Þannig ég veit ekki alveg hver tók þá ákvörðun.“

Óli Geir segir þá að allt sem snýr að gæslu og veitingasölu í húsinu sé á vegum Hljómahallar. „Ég veit að það er ekki eins spennandi frétt fyrir þig en það er samt þannig. Mér finnst ömurlegt að það sé verið að taka mig fyrir það en ég ætla samt að bera ábyrgð, auðvitað, ég hélt viðburðinn. Ég tækla þá þetta bara með þeim eftir það. Ég er að vinna hörðum höndum með Tix að endurgreiða þeim sem upplifðu þetta vesen og þau eru bara núna að fá endurgreitt, sem er bara frábært. Annað er ekkert í boði, ég er búinn að vera að gera þetta í 20 ár,“ segir hann.

„Þeir voru með einhverja 5-6 menn í gæslu, þeir eru skyldugir til að hafa 1 á hverja 50. Þetta er þúsund manna ball, alltaf þúsund manna ball. Það var uppselt, ég auglýsti það 6 tímum fyrir ballið held ég. Þannig það voru ekki einu sinni miðar seldir við hurð. Af þeim myndböndum að dæma sem ég hef séð, það er svona gangur í Hljómahöllinni, þú labbar inn gang og svo labbarðu inn í húsið, það var öllum hleypt inn í þennan gang. Það var enginn dyravörður sem tók á móti fólkinu og svo var fólkið bara lokað inni á ganginum. Gæslan var bara undirmönnuð, það er ekkert leyndarmál og ég vil bara að það komi fram, Venue Security og Hljómahöll sáu um það.“

Þá segir Óli að þessi vandræði hefðu ekki átt sér stað ef það hefðu verið fleiri í gæslunni. „Það er náttúrulega þannig. Það vissu allir sem voru að vinna við þetta ball, bæði Hljómahöll og gæslan, að það væri verið að taka við þúsund manns þarna. Ég kaupi út þessa þjónustu af þeim, af Hljómahöllinni, sem sér um þetta allt og hefur gert síðustu 13 ár. Af því þarna er ég bara uppi á sviði að spila, ég vissi ekki einu sinni að þetta væri í gangi,“ segir hann.

Verið að endurgreiða miða

Óli Geir segir að nú sé hann að vinna í því að endurgreiða þeim sem komust ekki inn. „Eins og staðan er akkúrat núna þá er ég bara að vinna með Tix núna að greiða úr því sem er í gangi. Það verður auðvitað gert þannig,“ segir hann.

„En gæslumál og annað, það er svo bara eitthvað sem þarf að skoða – ég mun allavega vera með mína eigin gæslu næst. Ég þurfti á tímabili og ég gerði það á tímabili, og það er fínt að það komi fram, að ég hljóp þarna fram og sé þetta. Ég hringdi í, ég er sjálfur með stað niðri í bæ, ég hringdi í gæsluna mína og það komu 5 dyraverðir hjá mér til að hjálpa þeim að greiða úr þessu.“

Aðspurður um það hvort eitthvað þessu líkt hafi gerst áður í tengslum við Ljósanæturballið segir Óli Geir að svo sé ekki. „Nei alls ekki, og svo er fullt fólk í röð náttúrulega, við vitum öll hvernig það getur farið. Það mynduðust slagsmál í röðinni og maður skilur það alveg en svona myndi aldrei gerast ef fólk hefði bara fengið að fara inn. Því þetta var svo einfalt, það er ekki miðasala við hurð þannig það eina sem þarf að gera er að skanna og hleypa inn,“ segir hann.

„Það voru 822 manns skannaðir inn í húsið. Þannig ef einhver í gæslu sem þú nærð í segir að það hafi verið alltof margir inni og að það hafi þurft að loka húsinu, til að verja sig, þá ertu með það.“

Segir ballgesti undir aldri hafa skapað ringulreið

„Okkur þykir þetta mjög leiðinlegt og við munum fara vandlega yfir hvað fór úrskeiðis,“ segir Tómas Viktor Young, framkvæmdastjóri Hljómahallarinnar, í samtali við DV. Hann segir að ballið hafi farið vel fram innandyra en eðli málsins samkvæmt séu þeir sem ekki komust inn og þurftu mögulega frá að hverfa mjög ósáttir.

Tómas segir að Hljómahöllin sé meðal annars að bíða eftir staðfestum sölutölum frá Tix og síðan verði farið yfir ferlið. „Það fór fram svipað ball kvöldið áður þar sem allt gekk eins og í sögu,“ segir Tómas Viktor. Stærsti munurinn var þó kannski sá að fyrra ballið var með 20 ára aldurstakmarki en seinna ballið með 18 ára aldurstakmarki.

Samkvæmt heimildum DV skapaðist ringulreiðin ekki síst vegna þess að fjölmargir einstaklingar undir aldri keyptu miða á viðburðinn og fór mikil vinna í það hjá starfsmönnum gæslunnar að fara yfir skilríki og miða viðkomandi. Þannig myndaðist flöskuháls sem gerði það verkum að margir gestir voru við það að troðast undir í biðröðinni.

Þegar ringulreiðin náði sem hæst var innganginum lokað í 15-20 mínútum meðan skilríki gesta voru yfirfarin og greitt úr flækjunni sem hafði myndast.

Ballið er nú til skoðunar hjá lögreglunni á Suðurnesum. Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, staðfesti það í samtali við Fréttablaðið en vildi þó ekki ræða um það hvernig afskipti lögreglu af ballinu voru.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Inga segir eiganda Lumex ljúga – Ítrekað hindrað aðgengi fatlaðra og rifið kjaft

Inga segir eiganda Lumex ljúga – Ítrekað hindrað aðgengi fatlaðra og rifið kjaft
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Listinn lengist – Þessir háttsettu Rússar hafa verið myrtir í Rússlandi

Listinn lengist – Þessir háttsettu Rússar hafa verið myrtir í Rússlandi
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Boða leiðindaveður yfir jólahátíðina – Gul jól í ár

Boða leiðindaveður yfir jólahátíðina – Gul jól í ár
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Lektor bendir á yfirgengilega framkomu fyrirtækjaeiganda í Skipholti – „Hún er því miður að gera þetta af einhvers konar illgirni“

Lektor bendir á yfirgengilega framkomu fyrirtækjaeiganda í Skipholti – „Hún er því miður að gera þetta af einhvers konar illgirni“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Pútín gæti staðið frammi fyrir alvarlegum vanda á næsta ári

Pútín gæti staðið frammi fyrir alvarlegum vanda á næsta ári
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Allt brjálaðist hjá dularfullri rússneskri útvarpsstöð

Allt brjálaðist hjá dularfullri rússneskri útvarpsstöð
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Sakamál ársins I: Æði rann á fjölskylduföður, Interpol lýsti eftir Pétri, stórþjófar í Hamraborg og barnaníðingur í Dalslaug

Sakamál ársins I: Æði rann á fjölskylduföður, Interpol lýsti eftir Pétri, stórþjófar í Hamraborg og barnaníðingur í Dalslaug
Fréttir
Fyrir 5 dögum

Ófögnuðurinn blasir við ferðamönnum við komuna til Íslands

Ófögnuðurinn blasir við ferðamönnum við komuna til Íslands