fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fréttir

Svindlarinn sem kvaðst vera njósnari hennar hátignar – Ótrúleg saga heilaþvottar, fjársvika og skelfingar

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Sunnudaginn 4. september 2022 20:00

Mynd/Netflix

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Robert HendleyFreegard fæddist í Bretlandi árið 1971 og þegar að skyldunámi lauk hóf hann störf á bílasölu. Eftir að hafa svikið fé út úr nokkrum viðskipavinum bílasölunnar taldi hann rétt að snúa sér að öðru.

Hann fór að starfa sem barþjónn. Robert gerði sér far um að spjalla við gesti og sagði þeim oft ótrúlegar sögur af ævintýrum sínum víða um heim. Hann var skemmtilegur og sjarmerandi og átti auðvelt með að vinna sér trúnað fólks.

Robert Hendley-Freegard

Njósnari

Einn af viðskiptavinum Roberts var John Atkinson, nemi í virtum landbúnaðarskóla. Þeir kynntust árið 1993, vinguðust og trúði Robert John fyrir því að hann væri í raun njósnari á vegum bresku leyniþjónustunnar MI5. Hans verkefni væri að finna útsenda írsku hryðjuverkasamtakanna IRA sem þá háði blóðuga baráttu við bresk stjórnvöld.

Ástandið var það eldfimt í þjóðfélaginu á þessum árum að það var hreint ekki útilokað að hryðjuverkamenn sæktu í landbúnaðarskóla til að komast yfir hráefni á við áburð til sprengjugerðar.

Robert HendleyFreegard sá sér leik á borði á að hagnast á ástandinu

Flóttinn

Robert sagði leyniþjónustuna vilja ráða John til að njósna um skólafélaga sína en til að sanna hollustu sína þurfti hann að ganga í gegnum furðuleg ,,próf”, meðal annars með því að vera sveltur og barinn.

John, Sarah, Maria og Robert um það leiti sem flóttinn hófst.

Að nokkrum mánuðum liðnum sagði RobertIRA hefði komist að ,,njósnunum” og væru þeir í lífshættu. Eina leiðin væri að flýja. Robert fékk John meira að segja til að ljúga að tveimur vinkonum sínum, þeim Söruh Smith og Mariu Henley, að hann væri dauðvona af krabbameini. Þær urðu eðlilega miður sín og samþykktu því að verða við hans hinstu ósk: Að keyra um Bretland þvert og endilangt.

Hófst þá makalaust ferðalag fjórmenninganna. Ferðalag sem átti eftir að standa í hvorki meira né minna en áratug.

Lífshætta

Stúlkunum var fljótlega sagt frá ,,lífshættunni” sem þær einnig trúðu. Sarah lét Robert í hendur aleigu sína, 300 þúsund punda arf sem hún hafði fengið nokkru áður og lét hann John hringja í foreldra sína til að greiða fyrir ,,vitnaverndina” ellegar yrði hann myrtur.

Foreldrar hans voru æfir, áttuðu sig á að einhvers konar svik voru í gangi en létu þó alls í té um 400 þúsund pund í von um að fá son sinn heim. Þau leituðu hans, og réðu jafnvel einkaspæjara, en alltaf var Robert skrefinu á undan og fjórmenningarnir horfnir þegar að Atkinson hjónin bar að garði.

Maria var blind af ást á Robert og átti með honum tvö börn á þessu tímabili. Hann lét það ekki stöðva sig til að stunda reglulega kynlíf með Söruh.

Líf á flótta

Fjórmenningarnir dvöldu aldrei lengi á sama stað fyrstu árin. Stundum gistu þau hjá fólki sem það þekkti ekki og var af ,,öryggisástæðum” bannað að tala við. Síðar reyndist eitt slíkt ,,öryggishúsnæði“ vera heimili konu sem Robert var einnig að svíkja fé út úr. Þegar á leið leigði Robert niðurnídda íbúð sem Maria dvaldi í með börn þeirra auk þess að stunda fulla vinnu. Robert kom og fór og hvarf oft svo vikum skipti.

Sarah Smith sagði sögu sína í heimildamyndinni.

Hann stjórnaði þó þremenningunum í gegnum regluleg símasamskipti.

John, Susan og Maria unnu alls kyns lausastörf en launin fóru til Roberts. Tryggð þeirra var reglulega ,,prófuð.” Þá máttu þau til að mynda ekki borða svo dögum skipti, voru svipt svefni eða jafnvel látin sofa úti í nístandi vetrarkuldanum. Sarah var til að mynda látin sofa á gólfi klósetts í þrjár vikur til að ,,sanna sig”.

Samskipti við aðra voru bönnuð og þeim sagt að með því að hafa samband við fjölskyldur sínar væru þau að undirrita dauðadóm þeirra. Eina undantekningin voru símtölin þegar beðið var um fé. Robert skrifaði handrit þeirra símtala og fylgdist með hverju orði.

Robert lifði lífi milljónamærings, safnaði rándýrum úrum og gekk aðeins í merkjavörufatnaði. Á tímabili átti hann sjö BMW bifreiðar.  Allt var greitt af þeim fjölda kvenna sem hann hafði fest í lygavef sínum.

Komið nóg

Ekki aðeins sáu hinir langþjáðu þremenningar fyrir að standa undir lífsstílnum heldur var hann í ,,sambandi” við fjölda kvenna sem hann sveik fé út úr. Hann eyddi fé einnar konu til að lokka hina hina næstu inn í net sitt. Robert jós yfir nýja fórnarlambið gjöfum þar til hann sá sér færi á að svíkja út úr henni fé og hvarf svo á braut.

Maria Henley við réttarhöldin árið 2005.

Eftir tæp tíu ár var John Atkinson búinn að fá nóg og hættur að trúa að IRA væri að reyna myrða hann. Hann hélt heim á leið til foreldranna sem voru búin að missa trúna á að sjá son sinn aftur. John hafði samband við foreldra og fjölskyldur Mariu og Söruh sem loksins fengu svör við þeim spurningum sem á þeim hafði brunnið. John hafði einnig samband við yfirvöld sem hófu að fylgjast með Robert Hendley-Freegard.

FBI

Robert var þá komin í samband við bandaríska konu, sálfræðinginn Kim Adams, búsetta í Bretlandi og vildi svo merkilega til að stjúpfaðir hennar hafði unnið stórfé í lottó. Líkt og margir aðrir trúði hún spæjarasögunni og var fljót að játa bónorði hans. Robert sagði leyniþjónustu Bretlands vilja ráða Kim sem njósnara við hlið hans en hún þyrfti að greiða 61 þúsund pund fyrir ,,njósnaranámskeið”.  Kim hringdi því í móður sína og stjúpföður í Bandaríkjunum til að biðja um fjármunina.

Robert ásamt Kim Adams. Foreldrar hennar höfðu samband við FBI

Þau hringdu aftur á móti umsvifalaust í bandarísku alríkislögregluna, FBI sem hafði samband við lögregluyfirvöld í Bretlandi. Og í sameiningu ákváðu löggæslustofnanirnar tvær, sitt hvoru megin við Atlantshafið, að nú væri nóg komið.

Komið var upp hlerunarbúnaði hjá móður Kim og hún beðin um að vingast við Robert og samþykkja allt sem hann færi fram á. Næstu daga spjallaði hún við Robert og sannanir um fjársvik hreinlega hrúguðust upp á upptökum. Hún sagðist þá mæta til London með fjármunina. Og þegar að Robert mætti á flugvöllinn í London til að taka á móti henni og peningunum beið lögregla hans og var Robert handtekinn.

Susan og Maria sneru þá fyrst loksins heim.

Fangelsi og frelsun

Árið 2005 var Robert HendleyFreegard var dæmdur í ævilangt fangelsi fyrir mannrán og fjársvik. Lögfræðingar hans unnu þó ötullega að frelsi hans með því að halda fram að varla gæti verið um mannrán að ræða þar sem fólkið hefði ekki verið læst inn. Vistin hefði verið af frjálsum vilja. Áfrýjunardómstóll tók undir þessi rök og eftir aðeins fjögur ár í fangelsi var dómnum snúið og Robert fékk frelsið.

Susan, Maria og John voru afar ósátt. Öll voru þau brotin og kvalin af fortíðinni en ákveðin í að byggja upp samskipti við ástvini og fóta sig í lífinu.

John Atkinson segist aldrei fyrirgefa sjálfum sér að hafa dregið stúlkurnar inn í lygavefinn.

Árið 2011 kynntist Robert konu að nafni Sandra Clifton í gegnum stefnumótaforrit. Hún var heilluð en unglingsbörn hennar tvö áttu bágt með að trúa sögum nýja kærastans um að hann væri eins konar alvöru James Bond.

Þau vöruðu móður sina við sem tók því afar illa og svo fór að Sandra hvarf á braut með Robert árið 2014 og hafði aldrei aftur samband við börn sín.

Börn Söndru, Jake og Sophie eyddu fjölda ára í leit að móður sinni.

Heimildamyndin

Í upphafi þessa árs kom út heimildamynd á Netflix um Robert, The Puppet Master. Þar segja John Atkinson, Susan Smith og systkinin, meðal annarra, frá hvernig Robert HendleyFreegard eyðilagði líf þeirra. Kvikmyndagerðarmennirnir fundu Robert sem þá bjó ásamt Söndru í Frakklandi undir nafninu David Clifton. Stunduðu þau hundaræktun sem mörgum í því fagi þótti fremur vafasöm.

Sandra Clifton með börnum sínum áður en hún hitt Robert.

Börn hennar reyndu að hafa samband en Sandra hefur sagt að hún muni aldrei ,,svíkja” Robert með því að tala við þau. Hún trúir enn að Robert sé í þjónustu leyniþjónustunnar.

Viðsnúningur enn á ný

Þann 26. ágúst síðastliðin réðist franska lögregla til inngöngu í hús þeirra og hugðist handtaka Robert vegna ítrekaðra brota gegn dýraverndarlögum. Robert flúði í Audi bifreið sinni og slasaði alvarlega lögreglumann sem reyndi að stöðva hann. Ók hann lögreglumanninn niður.

Húsið sem hjúin bjuggu í í litlu þorpi í Frakklandi.

Síðastliðin föstudag var Robert HendleyFreegard handtekinn í Belgíu og situr nú í gæsluvarðhaldi. Sumum nágrönnum parsins í þorpinu í Frakklandi var brugðið að vita af tilvist Söndru sem mun hafa búið í húsi í þeirra í svo að segja algjörri einangrun í rúm átta ár.

Hún neitar enn að tala við börn sín, neitar samvinnu við yfirvöld, og hefur svarið Robert ævarandi hollustu.  Enginn veit nákvæmlega hverju mikið fé Robert hafði af fórnarlömbum sínum en um gríðarlega háar upphæðir er að ræða.

Börn Söndru, Sophie og Jake, hafa aldrei gefist upp við að ná aftur sambandi við móður sína. Þau vilja sjá Robert fangelsaðan.

Belgísk yfirvöld mun að öllum líkindum senda Robert til Frakklands nú að helgi lokinni.

Það verður að óneitanlega fróðlegt að fylgjast með hver verða næstu skref í furðusögu Robert HendleyFreegard.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Grindvíkingar hentu 327 tonnum meira af sorpi í sumar en í fyrra

Grindvíkingar hentu 327 tonnum meira af sorpi í sumar en í fyrra
Fréttir
Í gær

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“

Henrietta segir foreldrajafnrétti stærsta jafnréttismálið – „Þetta misrétti hef ég upplifað á eigin skinni“
Fréttir
Í gær

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg

Tók meira en tvö ár að fá svör frá Reykjavíkurborg