Donald Trump, fyrrum Bandaríkjaforseti, hefur ítrekað kallað eftir því að pólitískir andstæðingar verði látnir sæta ábyrgð og dæmdir í fangelsi fyrir að brjót lög varðandi meðferð opinberra skjala. Ummælin þykkja athyglisverð vegna þeirrar hatrömmu viðbragða hjá Trump og stuðningsmönnum hans í kjölfar húsleitar bandarísku alríkislögreglunnar á lúxusheimili hans í Mar-a-Lago í Flórída þar sem hald var lagt á fjölmörg opinber skjöl sem talið er að forsetinn fyrrverandi hafi átt að skilja eftir í Hvíta húsinu þegar hann lét af störfum.
Þetta kemur fram í umfjöllun CNN en þar var farið yfir feril Trump og rifjuð upp ummæli hans í ræðum, á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum hin síðari ár.
„Varðandi pólitíska spillingu þá verðum við að endurreisa heiður stjórnvalda. Í minni ríkistjórn þá munum við fylgja eftir öllum lögum til að vernda trúnaðarskjöl. Engin er yfir lögin hafin,“ sagði Trump í ágúst2016. Mánuði síðar sagði bætti hann við: „Eitt það fyrsta sem við verðum að gera er að tryggja allar flokkunarreglur og fylgja eftir lögum varðandi meðhöndlun opinberra skjala.“
Ummælin voru yfirleitt látin falla í tengslum við storminn varðandi tölvupóstahneyksli Hillary Clinton sem í stuttum máli gekk út á það að í tíð hennar sem utanríkisráðherra Bandaríkjanna, 2009 til 2013, hafi hún ekki notað öruggt tölvupóstfang sem skráð var á vefsvæði bandarísku ríkisstjórnarinnar heldur sitt eigið póstfang sem hýst var á einkavefþjóni. Clinton slapp við að verða ákærð vegna málsins en andstæðingar hennar, þar á meðal Trump, hömruðu á málinu í aðdraganda forsetakosninganna árið 2016 og hafði það eflaust mikil áhrif á niðurstöðu kosninganna.
Trump sagði meðal annars ítrekað að tölvupóstahneykslið gerði Clinton óhæfa til að gegna opinberum embættum.
Þá hefur Trump í gegnum tíðina kallað eftir að andstæðingar hans eins og James Comey, fyrrverandi yfirmaður FBI, og þjóðaröryggisráðgjafarnir Michael Flynn og John Bolton, verði ákærðir fyrir meinta leka á trúnaðargögnum.
Nánar er fjallað um málið á vef CNN
Í húsleitinni, sem FBI framkvæmdi á heimili Trump þann 8. ágúst síðastliðinn, var lagt hald á talsvert magn af leynilegum skjölum sem með réttu áttu að vera í öruggri geymslu bandaríska Þjóðskjalasafnsins. Trump og hans fólk virðist hafa meðhöndlað þessi leynilegu gögn á ólöglegan hátt og bendir ýmislegt til þess að Trump sjálfur og samstarfsmenn hans geti verið í miklum vandræðum vegna málsins.