Eru LXS-þættirnir og tónlistarmaðurinn Hugó í rauninni liður í umfangsmikilli markaðsherferð? Þessa spurningu tóku þáttastjórnendur í Lestinni fyrir í gær og ráku þar hvernig Húgó, Birgitta Líf, Stöð 2, Vísir, Fm957 og öðruvísi auglýsingastofan Ketchup Creative tengjast.
Í þættinum las Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir upp pistil sinn um LXS-þættina. Hún segir þættina fjalla um vinkonuhóp sem hafi verið myndaður á þeim forsendum að konurnar sem hann skipi séu fallegar og vinsælar á samfélagsmiðlum. Þættirnir beri þess merki að vera eins konar auglýsing þrátt fyrir að þær vinkonurnar haldi því fram að þetta sé raunverulegasta raunveruleikasjónvarp sem gefið hafi verið út á Íslandi.
Þættirnir komi úr smiðju Ketchup Creative, sem sérhæfi sig í að búa til svokallaða kostaða afþreyingu (e. branded entertainment).
Salvör bendir á að í þáttunum megi finna ýmsar vörur sem annað hvort eru sýndar eða á þær ítrekað minnst með áberandi hætti. Til að mynda sé Birgitta Líf Björnsdóttir reglulega að tala um fyrirtæki fjölskyldu sinnar, World Class, og sinn eigin skemmtistað, Bankastræti Club. Sunneva Einarsdóttir kynni líka skartgripi sína með áberandi hætti. Eins nýti Birgitta hvert færi til að minnast á skjólstæðing sinn, en hún er umboðsmaður tónlistarmanns sem kallar sig Hugó og hefur aldrei komið fram undir raunverulegu nafni eða sýnt á sér andlitið.
„Ég vil ekki hljóma eins og einhver brjáluð samsæriskenningakona en þetta tengist allt saman krakkar. Ég þekki engan sem hlustar á Hugó hann er tilbúningur. Hann er ekki tónlistarmaður hann er branded entertainment.“
Salvör bendir á að nánast enginn fjölmiðill á Íslandi hafi fjallað um þennan tónlistarmann annar en Vísir. Vísir sé í eigu sömu samsteypu og Stöð 2 sem sýni svo þættina um LXS-stelpurnar og mun sýna þætti um Húgó á næstunni. Húgó hafi svo unnið nýliðaverðlaunin á hlustendaverðlaunum Fm957, en útvarpsstöðin sé í sömu samsteypu og Stöð 2 og Vísir, en allir þessir miðlar heyra undir samsteypuna Sýn. Allir þessir miðlar eru til húsa að Suðurlandsbraut 8 í Reykjavík.
Þáttastjórnendur Lestarinnar, Kristján Guðjónsson og Lóa Björk Björnsdóttir, tóku undir með Salvöru, en þau telja ljóst að Húgó þessi sé ekki til heldur sé þetta umfangsmikil markaðsherferð. Í raun séu bara til þrjú lög með þessum meinta tónlistarmanni en engu að síður mætti halda af umfjöllun Vísis að hann sé orðinn gífurlega þekktur í þjóðfélaginu. Þáttastjórnendur fóru meðal annars á stúfana um Útvarpshúsið til að kanna hvort fólkið þar þekki til Húgó og var niðurstaðan að flestir annað hvort þekktu hann alls ekki eða aðeins af afspurn.
Þau efast jafnframt um það sem Herra Hnetusmjör sagði þegar hann og Hugó gáfu út lag saman – að Húgó hefði strax verið boðinn samningur við Sony sem hann hafi afþakkað til að þurfa ekki að gefa upp kennitölu. Eins hafi varla liðið mánuður frá því að fyrsta lag Húgós kom út áður en að Birgitta Líf greindi frá því að hún væri nú umboðsmaður hans.
View this post on Instagram
Síðan hafi verið gerðir hlaðvarpsþættir sem kallast Hver er Húgó? En þar hafi Ingólfur Grétarsson og Eyþór Atli Finnsson, í samvinnu við Coke og Chicago town pizza, reynt að komast að því hver Húgó er, án árangurs þó.
Þarna virðist því vera gífurlegur áhugi, farið að fjalla um Húgó á einum stærsta miðli landsins, hann kom fram á Þjóðhátíð og var tilnefndur sem nýliði ársins.
Þau Kristján og Lóa veltu einmitt upp möguleika hvort að það væri Herra Hnetusmjör sem stæði að baki þessu, hvort hann teldi sig hafa uppskriftina að því að verða stærsti tónlistarmaður á Íslandi og hafi ákveðið að deila henni með þessum hætti.
Á YouTube er höfundarréttur laga Húgós skráður á KBE, sem Herra Hnetusmjör er í forsvari fyrir og er tónlistinni dreift af Sony. Í reynd gaf Herra Hnetusmjör skýringu á því á síðasta ári, þ.e. að allt hafi þurft að fara í gegnum hann þar sem Húgó vildi ekki gefa Sony upp kennitöluna sína.
Ketchup Creative er öðruvísi auglýsingastofa og framleiðendur afþreyingarefnis. Á vefsíðu þeirra tala þeir um „branded entertainment“ eða kostað afþreyingarefni. En það er útskýrt sem svo að nú á dögum séu fleiri og fleiri farnir að loka á auglýsingar á netvöfrum og skráð sig á streymisveitur sem ekki sýna auglýsingar.
Því hafi fyrirtæki og vörumerki í auknum mæli farið að leita nýrra leiða til að auglýsa sig. Kostuð afþreying sé ein leiðin sem í dag sé farin að það sé regnhlífarhugtak sem eigi við um afþreyingarefni sem er framleitt af þeim aðilum sem vilja auglýsa sig, efni sem neytendur horfi á með sama hugarfari og þeir hefðu horft á sjónvarpsþátt eða kvikmynd. Þannig séu áhorfendur ekki neyddir til að horfa heldur horfi því þeir vilji það. Gott dæmi sé til dæmis Legó-bíómyndin, segir Sindri Jóhannsson, framkvæmdastjóri Ketchup Creative, á heimasíðu fyrirtækisins.
Kostuð afþreying virki þó þannig að ákveðið gagnsæi þurfi að vera til staðar og fólk því meðvitað um að efnið sé kostað og framleitt af vörumerki.
„Í stað þess að horfa á vöruna, og hugsa hvernig getum við gert efni sem selur þetta, þá hefst þetta á, hvernig getum við gert frábæra afþreyingu sem fólk mun njóta, og hugsa svo þaðan hvernig slíkt gæti passað við vörumerkið eða vöruna og stilla þetta svo til þar þetta smellur saman.“
Eitt dæmið um kostaða afþreyingu sem nefnd er í bloggi Ketchup Creative er „PR-stunts“ eða eins konar markaðsherferð í gegnum miðla. „Hér er markmiðið að skapa efni fyrir samfélagsmiðla sem hefur skemmtanagildi eða er nægilega spennandi til að skapa jákvæða umræðu á vefmiðlum og vekja þannig athygli á vöru eða vörumerki þínu. Dæmi um þetta sé herferð sem Ketchup Creative gerði með WOW air þar sem myndband var birt á samfélagsmiðlum um besta sumarstarf í heimi og svo hafi Internetið séð um restina.
Vekur þetta einnig spurningar um LXS-dramað sem átti sér stað í gær, þegar Birgitta móðgaði Æði-strákana og baðst svo í framhaldinu afsökunar.
LXS-þættirnir og Æði eru sýndir á Stöð 2. Birgitta móðgaði strákana í viðtali við Ísland í dag á Stöð 2 og baðst svo afsökunar í viðtali hjá Veislunni á Fm957 þar sem hún var mætt í stúdíóið og sagðist vera miður sín yfir þessu öllu, aðeins um klukkustund eftir að strákarnir í Æði sögðust á samfélagsmiðlum vera yfir sig móðgaðir. Vísir fjallaði bæði um móðgunina og afsökunarbeiðnina. En kannski er blaðamaður að detta í sama samsæringargírinn og Salvör. Hver veit?
Sjá einnig:
Birgitta Líf segir að ummælin hafi ekki átt að beinast að Æði-strákunum
Lestin lauk svo umfjöllun sinni á að álykta að tónlistarmaðurinn Húgó væri ekki til. Þetta væri allt liður í markaðsherferð til að búa til vinsældir og spennu.
„Húgó er enginn – Húgó er bara samstarf Ketchup Creative, Stöðvar 2, Vísis, Herra hnetusmjörs og Birgittu Lífar – Þeirra úthugsaða tilraun til að búa til hype. Þetta er ekki flóknari en það. Hver kemur fram á sviðinu? Skiptir engu máli. Hver syngur lögin? Skiptir engu máli.“
Málið vekur einnig spurningar um þessa aðferð til að koma efni og þar með vörum og vörumerkjum til neytenda – hvort það samrýmist reglum um duldar auglýsingar sem Neytendastofa var nýlega að uppfæra og vekja athygli á. Ef mörkin milli auglýsinga og dægrastyttingar eru farin, hvernig vitum við að það er verið að reyna að selja okkur eitthvað?
Auglýsendur fara nú hver að verða seinastur að kaupa auglýsingar sem sýndar verða samhliða þáttunum um Húgó úr smiðju Ketchup Creative og sýndir á Stöð 2, en hver auglýsing kostar 250.000 kr. Í lýsingu sem auglýsendur fá á þáttunum segir:
„Tónlistarmaðurinn Húgó er með meira en milljón spilanir, skráður hjá Sony og Redbull og var kosinn Nýliði ársins á Hlustendaverðlaununum. Í þessari samfélagslegu tilraun verður farið yfir það hvaða þættir spila inn í vinsældir tónlistarmanna á Íslandi og skoðað hvort það sé raunverulega til einföld formúla fyrir frægð hérlendis. Við fáum að kynnast aðilunum á bakvið Húgó, hugmyndinni og hvernig verkefnið kom til. Í síðasta þættinum fá áhorfendur að sjá hver leynist á bak við grímuna.“
En þarna má sjá skýr merki þess að hér sé á ferðinni markaðsherferð þar sem gerð er tilraun til að búa til vinsælan tónlistarmann á „hype“-inu einu. Og líklega er þetta aðferð sem virkar, því nú hefur blaðamaðurinn sem þessi orð er að rita í fyrsta sinn skrifað um tónlistarmanninn, og það ótilneydd heldur af áhuganum einum saman, jafnvel svolítið „hæbuð“.
Rúrik Gísla er Húgó. thats it, thats the message #Hvererhugo pic.twitter.com/w2iNBPQSCh
— Garðar Örn Arnarson (@gardarorn23) August 9, 2022
Getur einhver sagt mer hver í fokkanum er þessi Hugo og afh gerir herra hnetusmjör ekki annað en að auglýsa hann?
— Gunni Ernir (@gunniernir) October 27, 2021