Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag en blaðið gerði verðkönnun á tíu algengum sælgætistegundum í Fríhöfninni og í lágvöruverðsverslunum á höfuðborgarsvæðinu.
„Er ríkið ekki einfaldlega að okra á ferðamanninum?“ spurði Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss, í samtali við Fréttablaðið. Hann benti á að nafnið, Duty Free á ensku, gefi til kynna að fólk sé að gera góð kaup en þegar raunveruleikinn sé skoðaður sé svo ekki.
Í Fréttablaðinu í dag er hægt að sjá töflu yfir verð á tíu algengum sælgætistegundum í Fríhöfninni og í þremur lágvöruverðsverslunum á höfuðborgarsvæðinu. Ekki var alltaf hægt að fá vörurnar í sama magni. Taflan sýnir að verðið á öllum tegundunum var hærra í Fríhöfninni og munaði stundum miklu. Til dæmis var fimmtíu prósent verðmunur á Extra tyggjói.
Þorgerður Þráinsdóttir, framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar, sagði ekki neitt einfalt svar vera við ástæðu þessa verðmunar. „En við erum í sjálfu sér ekki í samkeppni við verslanir hér innanlands heldur miklu fremur við aðrar fríhafnir í löndunum í kring,“ sagði hún.