Flugfélagið Play hefur nú opnað fyrir umsóknir fyrir 205 störf sem félagið hyggst ráða í fyrir næsta vor. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flugfélaginu.
Segir þar að samtals sé um 205 störf að ræða, þar af 150 flugfreyjustörf og 55 flugmannsstörf. Um stærstu ráðningu félagsins á einu vetfangi er að ræða. Flugliðum hjá flugfélaginu mun fjölga um helming næsta vor, en fyrir störfuðu einmitt 150 flugliðar hjá Play. Þá fer fjöldi flugmanna úr 70 í 125.
Play er nú með fjórar flugvélar í rekstri en tekur brátt fjórar nýjar í notkun og verða þannig vélarnar tíu.
„Nú er rétti tíminn til að manna vélarnar fyrir næsta sumar. Við erum afar stolt af því að við séum að skapa öll þessu nýju störf og ég er vægast sagt spenntur að fá nýtt fólk í PLAY liðið,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri PLAY, í tilkynningunni.
Tekið er fram að ráðnir verða flugliðar með og án reynslu, sem gæti vakið athygli og áhuga ófárra.
Hægt er að sækja um störfin á vefsíðu flugfélagsins.