Hæstiréttur Íslands hefur staðfest úrskurð Landsréttar um að skiptastjóri dánarbús hafi ofrukkað búið sem honum var falið að annast skipti á. Var dómstóllinn sammála þeirri niðurstöðu Landsréttar að þóknun skiptastjórans myndi lækka úr tæpum 14 milljónum króna í tæpar 10 milljónir króna. Þá var skiptastjóranum gert að greiða sóknaraðilum málsins, eftirlifandi eiginkonu hins látna og syni, samtals 600 þúsund krónur, hvoru um sig, í málskostnað á fyrri dómstigum.
Forsaga málsins er sú að maður lést árið 2017 og var bú hans tekið til opinberra skipta í byrjun árs 2018 og var umræddur lögfræðingur skipaður skiptastjóri. Erfingjar hins látna eru þrjú börn hans með fyrri eiginkonu sinni og síðan seinni eiginkona hans og sonur þeirra. Hin tvö síðarnefndu fóru síðan í dómsmál vegna þóknunarinnar háu sem skiptastjóri taldi sig eiga rétt á.
Í dómnum er rakið hvernig á fyrsta skiptafundi, í febrúar 2018, hafi skiptastjórinn lagt fram þær upplýsingar að lágmarksþóknun hans samkvæmt gjaldskrá væri 25.900 krónur auk virðisaukaskatts og að hann áskildi sér rétt, í samræmi við lög, til að innheimta þá þóknun úr sjóðum búsins. Þann 1. janúar 2019 hækkaði viðkomandi hins vegar lágmarksgjaldið í 29.000 krónur og innheimti þá upphæð af búinu, án þess að upplýsa erfingjana um hækkunina, þar til í ágúst 2021 þegar málinu var vísað til úrlausnar héraðsdóms.
Niðurstað Lands- og Hæstaréttar er sú að skiptastjóranum hafi verið óheimilt að hækka gjaldið og var honum gert að lækka þóknun sína niður í fyrri upphæð varðandi allar þær vinnustundir sem hann innti af hendi fyrir dánarbúið til ársins 2021. Í heildina lækkaði það reikning skiptastjórans um 1,3 milljónir króna
Ennfremur kemur fram að skiptastjórinn hafi þrisvar lagt fram yfirlit yfir vinnustundir sínar. Á þessu þriggja ára tímabili hafi þær verið samtals um 330 talsins. Um þennan fjölda vinnustunda var ágreiningur en erfingjarnir höfðu þó glatað rétti sínum til andmæla hluta þeirra því að engin mótmæli komu fram þegar þeim var kynnt fyrsta tímaskýrsla.
Að endingu féllst Hæstiréttur á þá niðurstöðu Landsréttar að skiptastjórinn hafi rukkað tíma úr hófi fram og því var þóknun hans á tímabilinu lækkuð sem nemur um 2,7 milljónum króna til viðbótar við 1,3 milljón króna lækkunina útaf tímagjaldinu. Í heildina lækkaði því reikningur skiptastjórans um tæpar 4 milljónir króna.