Karlmaður á þrítugsaldri var í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaður í gæsluvarðhald til 7. september á grundvelli rannsóknarhagsmuna að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Maðurinn er grunaður í máli sem snýst um innflutning á 5 þúsund töflum af OxyContin.
Tollurinn fann lyfið, sem barst hingað í póstsendingu, en um er að ræða 80 mg töflur. 80 mg töflur eru nokkuð dýrar en samkvæmt heimildum DV selst hver tafla á um 5.000 krónur á Íslandi í dag. Ljóst er því að þessar 5 þúsund töflur eru tugmilljóna virði en reikna má með að um það bil 25 milljónir hefðu fengist fyrir þær allar.
Í framhaldinu voru tveir menn handteknir í aðgerðum lögreglu vegna málsins og annar þeirra úrskurðaður í gæsluvarðhald, eins og áður sagði, en hinn er laus úr haldi.
Lögreglan gefur ekki frekari upplýsingar að svo stöddu.