fbpx
Mánudagur 03.febrúar 2025
Fréttir

Ókunnug vinnutæki stela bílastæðum af gestum Áskirkju

Máni Snær Þorláksson
Miðvikudaginn 31. ágúst 2022 15:30

Myndir/Aðsendar

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Við erum alveg í vandræðum, það er enginn sem veit hvernig á að hafa upp á eigendunum því það eru engin tæki merkt,“ segir séra Sigurður Jónsson, prestur í Áskirkju, í samtali við DV. Tækin sem um ræðir eru vinnutæki en þeim var lagt fyrir síðustu helgi á bílastæðum Áskirkju við Vesturbrún. Á bílastæðinu er einnig að finna fiskikar og timbur en allt þetta tekur 9 bílastæði á planinu.

Séra Sigurður auglýsti eftir eigendum tækjanna með færslu sem hann birti á Facebook en hann hefur ekki fengið neinar ábendingar um það hver eigandi þeirra er. „Ég þykist vita að það sé verið að vinna við einhvern garð eða eitthvað hús hér í nágrenninu, mér dettur það í hug, og þess vegna hafi menn veðjað á að leggja tækjunum þarna,“ segir Sigurður í samtali við blaðamann og lýsir því svo nánar hvað er að finna á bílaplaninu.

„Þarna er stór sturtuvagn og svona flatvagn undir gröfu. Svo er þarna stórt fiskikar og í því er steypuhrærivél og jarðvegspressa. Þarna er svo líka slatti af timbri. Þannig menn hafa svolítið dreift úr sér verð ég að segja.“

Séra Sigurður segir að kirkjan sé yfirleitt ekki að kippa sér upp við það þegar fólk þarf að leggja í stæðin. „Við höfum yfirleitt verið mjög liðleg ef menn þurfa að leggja hér í smástund en yfirleitt koma menn þá og spyrja hvort þeir megi vera til morguns eða í tvo daga. Þá er hægt að hliðra til og auðvelt að segja já við því,“ segir hann en í þessu tilviki var hvorki spurt kóng né séra Sigurð.

„Þegar menn koma bara, tala ekki við neinn og breiða svona hressilega úr sér þá sýgur nú heldur á okkur brúnin.“

„Hálfasnalegt“ að gestir þurfi að leggja við hliðina á vinnutækjum

Í dag verður haldin mjög fjölmenn útför í kirkjunni og ef tækin verða ekki færð fyrir hana þurfa syrgjandi aðstandendur að leggja við hliðina á vinnutækjunum, ef þeir þá fá stæði. Fleiri fjölmennar athafnir verða svo næstu daga og því er brýn þörf á að stæðin losni fyrir gesti kirkjunnar.

„Þetta er náttúrulega hálfasnalegt, að þurfa að leggja við hliðina á einhverjum stórum tækjum þegar þú ert að koma í kirkjuna,“ segir séra Sigurður.

Séra Sigurður er búinn að ræða við Reykjavíkurborg, sem á stæðin. „Þeir lögðu áherslu á það að stæðin væru ekki ætluð þessu, að sjálfsögðu ekki, en þeir gætu hins vegar vísað á vinnuvélastæði fyrir fólk til að leggja á.“

Að lokum segir Sigurður að þau í kirkjunni vilji bara finna eiganda tækjanna svo hægt sé að færa þau. „Það er mergur málsins.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sólveig Anna hlessa á nýrri prentarastillingu leikskólanna – Eykur á samviskubitið

Sólveig Anna hlessa á nýrri prentarastillingu leikskólanna – Eykur á samviskubitið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Var íslenska dragdrottningin myrt? – „Það hefur ekkert áunnist í þessari lögreglurannsókn“

Var íslenska dragdrottningin myrt? – „Það hefur ekkert áunnist í þessari lögreglurannsókn“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Eydís allt annað en sátt við Ingu Rún: „Er konunni alvara?“

Eydís allt annað en sátt við Ingu Rún: „Er konunni alvara?“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kristján ómyrkur í máli á fundi með borgarstjóra – Krafan er skýr

Kristján ómyrkur í máli á fundi með borgarstjóra – Krafan er skýr
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Kynferðisbrotamaður sleppur með skilorð eftir að móðir og stjúpfaðir brotaþola létu hendur skipta

Kynferðisbrotamaður sleppur með skilorð eftir að móðir og stjúpfaðir brotaþola létu hendur skipta
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sjáðu Þór bjarga Hugin – Myndband

Sjáðu Þór bjarga Hugin – Myndband