Úrskurður Landsréttar um áframhaldandi gæsluvarðhald og einangrun yfir einum sakborninga í máli er varðar skotárás sem átti sér stað á bílastæði í Grafarholti í febrúar hefur nú verið birtur, en er úrskurður féll var rannsókn máls á viðkvæmu stigi og má ætla að það sé ástæða þess að úrskurðurinn hafi fyrst verið birtur núna.
Sjá einnig: Skotárás í Grafarholti – Karlmaður á þrítugsaldri í haldi lögreglu
Af lestri úrskurðarins má sjá nánari mynd af atvikum málsins.
Þar kemur fram að skömmu eftir klukkan þrjú aðfaranótt 10. febrúar hafi lögreglu borist tilkynning um yfirstaðna skotárás á bílastæði í Reykjavík. Skömmu síðar hafi orðið ljóst að skotvopni hafi verið beitt gegn tveimur aðilum, karli og konu. Maðurinn var hæfður í lærið og konan í kviðinn. Þurfti konan að gangast undir aðgerð til að fjarlægja byssukúluna.
Fljótlega vaknaði grunur lögreglu um að tveir væru viðriðnir skotárásina, fyrrverandi kærasti konunnar , sem hafði ítrekað sent henni hótanir um líkamsmeiðingar, og svo meintur samverkamaður. Eins hafi komið í ljós að bifreið í eigu ömmu eins hins grunaða, sem hann hafði til umráða á þessum tíma, hafi verið á vettvangi.
Fram kom í fréttum þann 10. febrúar að karlmaður hafi verið handtekinn á Miklubraut morguninn eftir árásina. Sá sem var handtekinn þann dag heitir Hrannar Fossberg Viðarsson.
Hrannar á langan brotaferil að baki en hann hefur stigið fram í fjölmiðlum og rætt erfiða ævi sína. Hann leiddist ungur út í neyslu og kom að lokuðum dyrum í kerfinu þegar hann reyndi að leita sér hjálpar. Þegar hann var sextán ára gamall hlaut hann skilorðsbundinn dóm fyrir tilraun til manndráps og stórfellda líkamsáras en hann var aðeins 15 ára gamall þegar brotin áttu sér stað.
Sjá einnig: Hrannar sviptur reynslulausn og situr áfram í fangelsi – Grunaður um skotárás á par í Grafarholti
Hrannar í haldi lögreglu vegna skotárásar í Grafarholti – Langur sakaferill þrátt fyrir ungan aldur
Í áðurnefndum úrskurði segir að við leit í bifreiðinni fann lögregla skammbyssu þá er talin er hafa verið notuð við árásina en hlaupavídd hennar er talin passa við byssukúluna sem fjarlægð var úr kvið konunnar.
Hrannar mun hafa neitað því að svara öllum spurningum lögreglu er áframhaldandi gæsluvarðhald var úrskurðað, og ekkert tjáð sig um málsatvik.
Í úrskurði segir:
„Líkt og fram hefur komið er kærða gefið að sök að hafa í félagi við einn eða fleiri aðila staðið að skotárás gegn tveimur aðilum. Í ljósi aðferðarinnar og alvarleika áverka telur lögregla að háttsemi kærða og ætlaðs samverkamanns varði við 211. gr. sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga [tilraun til manndráps] en við brotinu liggur að lágmarki 5 ára fangelsi.“
Í úrskurði kom fram að rannsókn væri á viðkvæmu stigi og væri lögregla að vinna að öflun gagna úr síma Hrannars og meints samverkamanns. Þurfti lögregla ráðrúm til að rannsaka efnisinnihald þeirra.
Hafði lögregla verulegar áhyggjur af því ef ekki fengist áframhaldandi gæsluvarðhald þá gætu sakborningar ráðið málum sínum og reynt að hafa áhrif á vitni.
Gögn úr símtæki Hrannars, sem og staðsetning, hafi sýnt að hann var á vettvangi málsins er skotárásin átti sér stað og var lögregla að rannsaka myndefni úr öryggismyndavélum til að kortleggja ferðir hans fyrir og eftir árásina. Eins þyrfti að ræða við vitni og sakborningar án þess að þau fái tækifæri til að sammælast eða hafa áhrif á vitni.
Rannsókn hafi leitt í ljós tengingar fleiri aðila við málsatvik og mikilvægt væri að lögregla fengi tækifæri til að ræða við þá er gætu búið yfir mikilvægum upplýsingum án þess að sakborningar fengju tækifæri til að hafa áhrif á umrædd vitni.
Eins væri unnið að því að rannsaka skammbyssuna með tilliti til fingrafara og lífsýna.
Var farið fram á að Hrannari yrði áfram gert að sæta einangrun áfram til 25. febrúar og féllst dómari á það. Hrannari var svo með ákvörðun Landsréttar í sumar gert að sitja af sér 900 daga eftirstöðvar fangelsisdóm sem hann hlaut árið 2018.