Í helgarblaði Fréttablaðsins sem kom út í gær er að finna viðtal við rithöfundinn og baráttumanninn Hrafn Jökulsson en í því segir hann meðal annars frá því þegar hann var handtekinn í október árið 2020. Í yfirlýsingum sem systkini Hrafns, þau Elísabet Jökulsdóttir og Illugi Jökulsson, birtu á Facebook-síðum sínum greina þau frá því að þau hafi átt sinn þátt í handtökunni.
Hrafn var staddur á Brú í Hrútafirði þegar lögreglan mætti á svæðið. „Þar sem ég stóð þarna og ætlaði að kalla á hann Mosa minn byrjuðu allt í einu blá og rauð ljós að blikka í myrkrinu. Á þeim var ekkert form og það fyrsta sem þessum fjörulalla datt í hug var: En gaman, er þetta geimskip? En þá heyrðist rödd úr myrkrinu sem kallaði: „Vopnuð lögregla! Hrafn, upp með hendur!“ Þá hugsaði ég og ég man hverja nanósekúndu eins og ég man líf mitt mestan part: Ekki geimskip, vopnuð ríkislögregla?? Þá komu, eins og í Andrésblöðunum tvö spurningamerki. Og síðan setningin á ensku, einhverra hluta vegna: I hit the jackpot,“ segir Hrafn í viðtalinu.
„Mér er skipað að ganga til þeirra með uppréttar hendur inn í myrkrið. Ég hlýði því og geng inn í myrkrið. Síðan skipar hrædd rödd mér að stöðva og svo að krjúpa. Svo koma tveir hræddir menn í myrkrinu, skella mér í mölina og ég er handjárnaður eftir öllum víkinganna kúnstarinnar reglum.“
Elísabet og Illugi höfðu haft samband við lögregluna því þau höfðu áhyggjur af bróður sínum. Hvorugt þeirra grunaði þó að víkingasveitin myndi mæta vopnuð og handtaka bróður þeirra. „Það var frá fyrstu stund hörmulegt að heyra af því sem gerðist á Brú fyrir tæpum tveim árum. Ástvinir Hrafns höfðu áhyggjur af honum, með réttu eða röngu, og báðu þess vegna um að litið yrði til hans. Þannig var það, því miður. Enginn lét sér til hugar koma að víkingasveit yrði kölluð út,“ segir Illugi í sinni færslu.
„Það sem þar gerðist var augljóslega hvorki í samræmi við beiðni ástvina hans né almennilega lögregluhætti, og allra síst þann mann sem mætti lögreglumönnunum á Brú og var bersýnilega í alla staði til friðs. Ég vona að úr þessu máli verði leyst fljótt og vel þannig að yfirvöldin geti lært af.“
Elísabet segir svipaða sögu og Illugi í sinni færslu. „Hrafn bróðir minn varð fyrir hrottalegu ofbeldi og ólöglegri handtöku eins og hann lýsir í þessu fína viðtali sem Fréttablaðið birti við hann í gær. Ég verð að játa að ég átti ákveðinn þátt í því, það voru mistök og ég harma það alla daga,“ segir hún í sinni færslu.
„En á móti kemur að ég ætlaðist auðvitað aldrei til þess að það kæmi heil víkingasveit að athuga með hann. Ég hafði talið að hann hafði gengið fram af sér við fjöruhreinsun og orðið veikur þess vegna. Þegar ég hringdi á lögregluna bjóst ég við að það kæmu tveir alúðlegir lögregluþjónar frá Blönduósi með lækni sem vissi sínu viti. Þeir Hrafn hefðu þá getað rætt málin í sameiningu. Ég þarf ekki að taka það fram hversu hjartfólginn þessi bróðir minn er mér og að ég óska honum fulls bata í baráttu hans við krabbamein sem nú fer fram.“
Hægt er að lesa viðtalið við Hrafn í heild sinni á vef Fréttablaðsins.