Lögreglan hefur til rannsóknar kynferðisbrot sem átti sér stað í Fjölbrautarskóla Suðurlands. Brotaþoli og meintur gerandi eru nemendur við skólann og undir lögaldri. Fréttablaðið greindi fyrst frá.
Olga Lísa Garðarsdóttir, skólameistari, segir nemendum skólans frá málinu í tölvupósti en afrit af honum hefur verið dreift á Twitter og er að finna hér í fréttinni.
Áður hafði verið tíst um það á Twitter að kynferðisbrotamál hafi komið upp í Fjölbrautarskóla Suðurlands og að meintur gerandi hafi verið settur í fjögurra daga straff vegna málsins.
Olga Lísa segir í samtali við Fréttablaðið: „Báðir aðilar eru nemendur í skólanum, undir lögaldri. Það hefur í för með sér að þau eiga bæði rétt á að mæta í skólann eftir helgina. Það er ekki búið að dæma í málinu og því er gerandi saklaus þar til sekt er sönnuð“