Björgunarsveitir voru kallaðar út í tvígang í morgunsárið. Annars vegar vegna örmagna hjólamanns á hálendinu og hins vegar vegna vélarvana báts sem rak að landi rétt utan við Keflavík. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbjörg.
Þar segir að vélarvana báturinn hafði verið á veiðum þegar hann byrjaði að reka hratt að landi. Endaði báturinn á að reka upp í klettana utan við höfnina í Keflavík. Í tilkynningu segir:
„Einn maður var um borð og slasaðist hann ekki og í fyrstu virtist ekki hafa komið leki að bátum. Björgunarbáturinn Njörður kom á vettvang stuttu seinna og kom taug í bátinn og dró hann til hafnar, þangað sem hann var kominn klukkan rétt rúmlega tíu.“
Á sama tíma var björgunarsveit kölluð út á Blönduósi vegna örmagna reiðhjólamanns sem hafði leitað skjóls í hesthúsi við skálann Áfanga við Kjalveg. Í tilkynningu segir:
„Björgunarsveitarfólk var rétt í þessu að koma að manninum sem er kaldur og blautur eftir hrakningar gærdagsins og næturinnar. Ágætis veður er nú á svæðinu og verðu honum og búnaði hans komið til byggð, hann var einnig óslasaður.“