Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari fékk í gær áminningu frá Sigríði Friðjónsdóttur ríkissaksóknara vegna ummæla sem hann lét falla í júlí síðastliðnum. Sigríður staðfesti að Helgi hafi fengið áminningu vegna ummælanna í svari við fyrirspurn mbl.is.
„Auðvitað ljúga þeir. Flestir koma í von um meiri pening og betra líf. Hver lýgur sér ekki til bjargar? Þar fyrir utan er einhver skortur á hommum á Íslandi?,“ eru ummælin sem um ræðir en Helgi skrifaði ummælin í tengslum frétt Vísis. Fréttin fjallaði um hinsegin hælisleitendur sem sakaðir hafa verið um að ljúga um kynhneigð sína.
Helgi fékk ámmininguna á þeim grundvelli að háttsemi hans utan starfs hans hafi verið bæði ósæmileg og ósamrýmanleg starfi hans. Þá hafi þessi háttsemi hans varpað rýrð á störf hans, embætti ríkissaksóknara og ákæruvaldið. Þá segir áminningin að tjáning Helga hafi grafið undan virðingu og trausti til embættis ríkissaksóknara og ákæruvaldsins.
„Hér ber að undirstrika að vararíkissaksóknari er staðgengill ríkissaksóknara sem er æðsti handhafi ákæruvalds hér á landi. Vararíkissaksóknara ber því að vera öðrum ákærendum fyrirmynd í allri sinni framgöngu,“ segir í svari ríkissaksóknara sem barst mbl.is.