Sky News leitaði svara við þessu hjá Michael Clarke, prófessor í varnarmálum við King‘s College London. Hann sagði að töluvert hafi borist af fréttum um að rússneskir hermenn hafi gert uppreisn í fremstu víglínu en það dugi ekki til að stöðva hernað þeirra í Úkraínu.
Nú sé ungum mönnum boðið mikið fé fyrir að ganga til liðs við herinn og berjast í Úkraínu í sex mánuði. Þeir fái þó litla sem enga þjálfun áður. Um verulega háar upphæðir er að ræða fyrir hvern mánuð eða þreföld til fjórföld mánaðarlaun margra Rússa.
„Þetta er örvæntingarfullt en Rússar munu halda áfram að senda unga menn í stríðið. Margir þeirra munu deyja með gilda bankareikninga heima,“ sagði Clarke.
Hann sagðist telja að miðað við óbreyttar aðstæður þá muni Úkraínumenn byrja að hrekja Rússa frá herteknum svæðum á fyrri helmingi næsta árs vegna skorts Rússa á öllum nema stórskotaliðsbyssum og skotum í þær. Það eina sem geti breytt þessu sé að Rússar efli styrk sinn í Úkraínu mjög mikið.
Hann sagði að Pútín sé svo staðráðinn í að halda stríðinu áfram að hann muni finna leiðir til að fá fleiri hermenn til að senda í fremstu víglínu ásamt búnaði og skipti þá engu að vestræn tækni og úkraínskar varnarsveitir, sem telja 700.000 til eina milljón manna, muni nánast éta menn og búnað Rússa.
Hann sagði rússneska herinn vera illa skipulagðan og mikla spillingu innan hans. Af þeim sökum verði Pútín því að bæta í, lýsa yfir stríði, til að hægt sé að halda stríðsrekstrinum áfram: „Það er klikkun en það er það sem ég tel að hann muni gera, ein klikkuð ákvörðun ofan á aðra, það er þannig sem einræðisherrar hegða sér í hægfara falli sínu.“