Hermann Óli Bachmann Ólafsson, hársnyrtimeistari og eigandi hárgreiðslustofunnar Modus, hefur stigið fram og gengist við því að hafa farið yfir mörk viðskiptavinar og lofað bót og betrun. Forsaga málsins er sú að nafnlaus meðlimur hópsins Baráttuhópur gegn ofbeldismenningu á Facebook , þar sem meðlimir eru um 12 þúsund talsins, birti færslu þar sem að viðkomandi sakaði vinsælan eiganda stofunnar um að hafa sýnt af sér óæskilega hegðun þar.
„Óþæginlegar snertingar og kynferðistlegt tal, öll skiptin sem ég hef farið þangað hef ég verið ónýt á eftir þar sem þetta triggerar mig mjög eftir kynferðisofbeldi sem ég hef orðið fyrir. Er í sjokki og veit ekki hvernig mér á að líða. Ég var ekki einu sinni í klippingu hjá honum. Þessi aðili er vel þekktur í bransanum,“ skrifaði viðkomandi. Í kjölfarið óskuðu fjölmargir meðlimir hópsins eftir svokölluðu hvísli í einkaskilaboðum með upplýsingum um hvern væri rætt.
Sólarhring síðar steig svo Hermann Óli fram og sagði að hvíslin væru óþörf því hann væri maðurinn sem um væri rætt.
„Ég tek fulla ábyrgð að gjörðum mínum og er gersamlega eyðilagður. Ég fór yfir mörkin og áttaði mig ekki á því sjálfur. Ég hef enga afsökun fyrir hegðum minni og mér þykir þetta mjög leitt.
Ég sé ykkur, ég heyri í ykkur og ég styð ykkur. Ég mun gera allt sem ég get til þess að lagfæra mína hegðun og er að taka stór skref núna í að leita mér aðstoðar svo þetta komi aldrei fyrir aftur. Ég og stofan mín viljum að öllum líði vel hjá okkur og upplifi öryggi og hamingju. Ég biðast aftur afsökunar á að hafa ekki veitt það,“ skrifaði Hermann Óli í færslu undir þræðinum.
Þá óskaði hann eftir því að fleiri sem teldu sig hafa neikvæða upplifun að honum myndu senda honum skilaboð svo hann gæti unnið betur í sínum málum.
Ljóst er á viðbrögðum innan hópsins að sú ákvörðun hárgreiðslumeistarans að stíga afdráttarlaust fram fellur vel í kramið og er honum hrósað í hástert fyrir viðbrögðin.
„Ég tel mig þekkja þig og veit að þú vilt ekki flugu mein og trúi að þú gerir allt til að bæta þessa hegðun. Þú ert stór karakter og er svolítið hömlulaus en ég veit að þú getur það sem þú tekur þér fyrir hendur. Ég er stolt af þér að stíga fram og taka ábyrgð,“ skrifar einn netverji og fleiri taka undir á sömu nótum og senda Hermanni Óla hvatningarorð.