Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, hélt því fram í gær að námi á Kvíabryggju væri sjálfhætt vegna vinnubragða skólameistara Fjölbrautarskóla Suðurlands (FSu) og hvatti hann til að menntamálaráðherra afturkallaði allt fjármagn til skólans sem eyrnamerkt væri námi fanga.
Gunðmundur Ingi sagði á Facebooksíðu sinni að Olga Lísa Garðarsdóttir, skólameistari FSu, hafi „upp á sitt einsdæmi ákveðið að fangar væru ekki þess verðugir að leggja stund á bóknám“ og að hún ætli að loka á fjármagn fyrir 10% stöðu námsráðgjafa hjá Fjölbrautarskóla Snæfellinga (FSN) sem hafi komið aðra hverja viku á Kvíabryggju og eftir þörfum oftar til aðstoða fanga í námi og leiðbeina.
Bæði Fréttablaðið og Vísir fjölluðu um málið.
DV hafði samband við Olgu Lísu og spurði hana út í þessar fullyrðingar.
Breytt fyrirkomulag
„Þarna er um misskilning að ræða hjá Guðmundi Inga enda hafði hann ekki samband við mig áður en hann skrifaði færsluna,“ segir hún.
Að sögn Olgu Lísu er verið að breyta fyrirkomulagi kennslunnar. „Önnin er að fara af stað og því erum við að móta nýtt fyrirkomulag með að markmiði að nýta fjármagnið sem best og auka við möguleikann á meiri skilvirkni. FSu hefur haft það hlutverk í áratugi að sjá um kennslu og námsráðgjöf í fangelsum og hyggjumst við sinna því hlutverki eins vel og við getum áfram. Við erum alltaf háð því fjármagni sem við fáum og þurfum við að ráðstafa því sem best,“ segir hún.
Olga Lísa bendir á að FSu sé með staðbundna kennslu á Sogni og á Litla-Hrauni en önnur kennsla er fjarnám í þeim skólum sem þjónusta slíkt nám, þar með taldir háskólarnir, og fer það eftir stöðu nemenda í námi. „Með allt nám aðstoðar námsráðgjafi okkar og greiðir hann götur nemenda eins og mögulegt er, á því verður enginn breyting,“ segir hún.
Fastir tímar í fjarráðgjöf
FSu hefur það hlutverk að sinna námsráðgjöf í fangelsum á Íslandi og til þess fær skólinn fjármagn sem svarar einu stöðugildi.
Olga segir að undanfarin ár hafi þau hins vegar aukið ráðgjöfina um sem samsvari 10% með því að kaupa þessi 10% af FSN.
„Síðastliðin ár voru fáir nemendur við nám á Kvíabryggju og lítil nýting á námsráðgjafanum þar. Á liðnu ári fengum við ekki það fjármagn sem við þurftum til að reka þessa viðbót og fleira. Því var sú ákvörðun tekin að við tækjum tæknina í lið með okkur varðandi ráðgjöfina og í stað þess að keyra að Kvíabryggju frá FSN vikulega, þá fer námsráðgjafi okkar í upphafi annar að Kvíabryggju kannar jarðveginn, aðstoðar nemendur sem hyggja á nám og tengir við þá. Hann verður síðan með fasta tíma í fjarráðgjöf vikulega fyrir nemendur,“ segir Olga Lísa.
„Við þurfum að leita allra leiða til að nýta það fjármagn sem veitt er til menntunar og ráðgjafar fanga eins og annarra nemenda sem allra best og í ljósi tækninnar er það gerlegt varðandi námsráðgjöf á Kvíabryggju,“ segir hún.