Fréttablaðið skýrir frá þessu og hefur eftir Áslaugu Arndal, hjá Hjálparstarfi kirkjunnar, að í fyrra hafi um 200 börn fengið efnislega aðstoð hjá hjálparstarfinu í upphafi skólaársins en nú séu þau 292.
Hún sagði að úthlutunin hafi gengið vel, flest börnin vanti útiföt og skólatöskur. Hjálparstarfið eigi nóg fyrir alla því fólk hafi verið duglegt að koma með slíkt til hjálparstarfsins.
Hún sagði að margir, sem leita til hjálparstarfsins núna, hafi komið áður en einnig sé um úkraínska flóttamenn að ræða og fólk frá öðrum löndum.
Hjá Fjölskylduhjálp Íslands er staðan svipuð að sögn Ásgerðar Jónu Flosadóttur, formanns. Hún sagði að mikið hafi verið að gera að undanförnu. Aðsóknin hafi aldrei verið meiri. Hún sagðist ekki skilja hvað stjórnmálamenn séu rólegir yfir ástandinu, þetta sé risastórt vandamál.