Þúsundfætlan nátvífætla fannst í annað sinn á Íslandi á dögunum þegar Reykvíkingur uppgötvaði pöddurnar í jarðarberjum sem hann var að rækta í garðinum sínum.
Samkvæmt vef Náttúrufræðistofnunar Íslands fannst nátvífætlan (Boreoiulus tenuis) fyrst hér á landi árið 2010 í Hólakirkjugarði í vesturbæ Reykjavíkur.
Í grein sem skordýrafræðingurinn Erlingur Ólafsson skrifar á vef Náttúrufræðistofnunar segir að sveppafræðingur hafi fundið nátvífætluna í fágætum sveppi sem hann hafði fylgst með í kirkjugarðinum um árabil. Þá voru tekin sýni úr sveppnum og við skoðun á rannsóknarstofu komu í ljós „fjöldi örgrannra, hvítleitra orma sem helst minntu á þráðorma. Við stækkun sást að á ormunum var urmull fóta og því augljóslega um þúsundfætlur að ræða.“ Þremur árum síðar hafi náfætlan enn verið við lýði í sveppnum.
„Mjög sjaldgæft og ekki hættulegt“
Síðan hefur ekki til nátvífætlunnar spurst þar til hún fannst í jarðarberjum á dögunum. Sá sem fann pödduna í uppskerunni sinni úr garðinum sendi sýni til Náttúrufræðistofnunar og fékk að vita að um nátvífætlu væri að ræða.
Vel sást á jarðarberjunum að eitthvað væri inni í þeim og var því enginn sem lagði sér þau til munns. „Það fer ekki á milli mála að eitthvað er í gangi þannig að ég át engin ber með auka próteini. Þetta herjar á þau öll ef þau ná að verða fullþroskuð, annað hvort þarf ég að týna þau rétt áður eða missa þau í tvífætluna,“ segir jarðarberjabóndinn og bendir á að það sé ekkert að óttast. „Þetta er mjög sjaldgæft og ekki hættulegt. Það sést vel á berinu að eitthvað er í því.“
Þrjár tegundir í nágrannalöndunum
Í grein Erlings Ólafssonar er skýrt að íslenskt nafn nátvífætlunnar hafi komið til vegna sérstæðs litarins og ekki síður vegna þess að hún fannst upphaflega í kirkjugarði.
Erlingur skrifar að þrjár tegundir af þessu tagi finnist í nágrannalöndum okkar: „Í nágrannalöndum finnst nátvífætla einkum í mótuðu manngerðu umhverfi, í gamalgrónum görðum, skrúðgörðum og kirkjugörðum, einnig í gróðurhúsum. Heldur sig undir steinum, í rotnandi laufi og dauðum, rotnandi trjám.“