Auglýsingar frá haframjólkurframleiðandanum Oatly ollu töluverðu fjaðrafoki og reiði á samfélagsmiðlum í gær eftir að Björk Eiðsdóttir, ritstjóri helgarblaðs Fréttablaðsins, vakti athygli á auglýsingunum á Facebook-síðu sinni. Ástæðan fyrir reiðinni var sú að auglýsingarnar, sem mátti sjá á netmiðlum og strætóskýlum víðs vegar um bæinn, voru á ensku.
„It’s like milk but made for humans,“ stóð í auglýsingunum en Björk furðaði sig á því að ekki væri notast við íslenska þýðingu á slagorðinu: „Eins og mjólk – en gerð fyrir fólk.“
Björk sagði að íslenska þýðingin hefði svoleiðis steinlegið og tóku margir málsmetandi aðilar undir með henni. Karen Kjartansdóttir, almannatengill og fyrrverandi framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, spurði til dæmis hvaða „fásinna“ það væri að setja enska slagorðið á strætóskýli þegar auðvelt er að þýða það.
Þá blandaði Andri Snær Magnason rithöfundur sér í leikinn í athugasemdakerfinu hjá Kareni. „Glatað ef þetta er stefnan,“ sagði Andri Snær.
Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði, vakti einnig athygli á auglýsingunni á sinni Facebook-síðu og segir: „Auglýsingar eiga að vera á íslensku!“
DV fjallaði um málið í gær og reyndi að ná tali af af framkvæmdastjóra markaðssviðs hjá Innes, sem flytur inn Oatly, en það gekk ekki. Nú er þó ljóst að Innes hefur séð umræðuna sem var í gangi og ákveðið að taka hana til sín þar sem auglýsingarnar á vefmiðlum landsins eru nú með íslensku þýðingunni hennar Bjarkar: „Eins og mjólk en gerð fyrir fólk.“
DV ræddi við Þórunni Önnu Árnadóttur, forstjóra Neytendastofu, um málið í gær en hún sagði þá að málið væri ekki komið formlega á borð hjá þeim.
„Við höfum í rauninni tekið mál til meðferðar í gegnum tíðina þar sem auglýsingar hafa verið á ensku, við höfum ekki tekið formlegar ákvarðanir því auglýsingunum hefur yfirleitt verið breytt þegar við höfum haft samband,“ segir Þórunn í samtali við blaðamann. Yfirleitt hefur það dugað Neytendastofu að senda fyrirtækjum bréf þegar auglýsingar eru á ensku því fyrirtækin taka það yfirleitt til sín.
Þá sagði Þórunn að mál sem þessi séu ekki jafn algeng og mörg halda. „Í sjálfu sér þá gerist þetta ekki eins oft og maður myndi halda, miðað við allt sem er í gangi. Það er eins og fólk passi sig á þessu, sérstaklega í svona þessum hefðbundnu miðlum.“