Ole Anton Bieltvedt, dýraverndunarsinni og samfélagsýnir, segir í pistli sem birtist í Fréttablaðinu í dag að honum finnist flöggun regnbogafánans í Listaháskóla Íslands virka „dálítið yfirkeyrð“. Fáninn var dreginn að húni þann 6. ágúst síðastliðinn og hefur því verið þar í alls 18 daga, eitthvað sem Ole Anton finnst vera „hálf ólystilegt“.
„Listaháskólinn er auðvitað ríkisstofnun, þar sem ábyrg og yfirveguð afstaða gagnvart öllum hópum þjóðfélagsins verður að gilda, og ekki á að koma til, að einn hópur sé sérstaklega tekinn út úr, fram fyrir aðra, og honum hampað lengur og meir en öllum öðrum,“ segir hann í pistlinum. „Ýmsir aðrir aðilar, kirkjur, stofnanir og fyrirtæki, líka sveitarfélög, virðast hafa sömu skoðun á því, að yfir hinseginfólki og trans fólki verði að gleðjast sérstaklega, og, að það beri að styðja og hampa því séstaklega, með málverki regnbogafána á stéttir, stíga og stræti og ómældri flöggun regnbogafánans.“
Ole Anton talar þá um að það séu fleiri minnihlutahópar til og að þeim sé ekki fagnað sérstaklega. „Til að nefna nokkra hópa þjóðfélagsins, sem einhverja sérstöðu hafa, samanborið við þorra manna, má byrja á örvhentum, sem munu vera um 10% mannkyns. Flest tæki og áhöld og ýmiss búnaður og farartæki eru hönnuð fyrir hægrihenta, rétthenta, sem kallað er, og veldur það örvhentum oft óþægindum, ef ekki vandræðum, í þeirra daglega lífi,“ segir hann.
Því næst nefnir hann smávaxið fólk og hávaxið fólk. „Þá má líka líta til þeirra sem eru hávaxnir, kannske tveggja-metra-menn, sem verða að sæta margvíslegum óþægindum, órétti, þar sem hvorki dyr, stólar, rúm, bílar eða flugvélar eru sérstaklega hannaðar fyrir þá,“ segir hann. „Vill einhver gleðjast sérstaklega yfir tveggja-metra-mönnum? Flagga? Mála stéttir? Skólameistarar, sóknarprestar, oddvitar?“
Þá talar Ole Anton einnig um Gleðigönguna en hann virðist ekki heldur vera afskaplega hrifinn af henni. „Talandi um skrúðgöngur hinseginfólks, þá spyr ég mig oft hvað sumum þátttakendum þar gengur eiginlega til með hömlulitlum kynferðislegum tilburðum, dansi, skaki og rúnki, fáklæddir og strípaðir, eins og að slík hegðun sé æðsta dyggð góðra manna. Fyrir mér, oftast óviðeigandi og smekklaus fíflagangur,“ segir hann.
„Að mati margra fer bezt á því, hver svo sem hópurinn kann að vera, að menn haldi sínum kynferðismálum fyrir sig og sinn eða sína. Haldi þeim sem sínum einkamálum, sem lítið erindi eiga á torg.“
Að lokum segist Ole Anton „þekkja góða og gegna menn sem eru hinsegin“ á sama hátt og hann þekkir fólk sem tilheyrir öðrum minnihlutahópum. „Allt fólk eins og við hin, og fyndist mér gott ef við gætum umgengist alla jafnt, sýnt öllum, ekki þá sízt fötluðum, þroskaheftum, sjúkum og þeim sem fastir eru í hjólastólum, líka öllum þeim öðrum, sem eiga á annan hátt undir högg að sækja í lífinu, velvild, virðingu, sanngirni og leitað jafnréttis og velferðar fyrir alla,“ segir hann.
DV óskaði eftir viðbrögðum um greinina frá Gunnlaugi Braga Björnssyni, formanni Hinsegin daga, sem skrifaði þá athugasemdir sínar við greinina og birti í færslu á Facebook-síðu sinni. Gunnlaugur vekur athygli að því að það verði í raun að teljast ákveðið afrek að regnbogafáninn hafi fengið að standa svona lengi við Listaháskóla Íslands.
„Því eins og komið hefur fram hafa regnbogafánar víða verið skornir niður að undanförnu og ýmis hatursfull skemmdarverk unnin á sameiningartákni hinsegin fólks. En hvað um það. Þetta þriggja vikna fánablakt virðist fara fyrir brjóstið á greinarhöfundi sem telur að með því hampi skólinn einum þjóðfélagshópi lengur og meira en öðrum,“ segir Gunnlaugur og vekur athygli á því að Ole Anton kallar flöggunina „ólystilega.“
Varðandi skrif Ole Antons um örvhenta, smávaxna og þá sem eru yfir tveir metrar á hæð segir Gunnlaugur að Ole Anton virðist hrapa að þeirri ályktun að mannréttindi og sýnileiki sé eins konar kaka. „Stækki sneið eins hóps þá hljóti sneiðar annarra hópa að minnka. Sú er þó ekki raunin og ég leyfi mér að fullyrða að það að LHÍ flaggi fána hinsegin fólk – samfélagi þess, sýnileika og réttindabaráttu til stuðnings – varpi engum skugga á þá hópa sem greinarhöfundur gerir sérstaklega að umfjöllunarefni sínu,“ segir Gunnlaugur.
„Raunar leyfi ég mér líka að fullyrða að fáir af þeim hópum sem Ole nefnir upplifi um þessar mundir aukið áreiti, aðkast og jafnvel ofbeldi fyrir það eitt að vera – eins og hann orðar það sjálfur – „fólk eins og við hin“, þó vissulega megi gera gangskör í málefnum sumra þessara hópa. En hafi orðið bakslag í réttindabaráttu örvhentra eða hávaxinna biðst ég auðvitað forláts á þekkingarleysi mínu og legg til að fánar þeirra verði dregnir að húni hið fyrsta.“
Að lokum talar Gunnlaugur um það sem Ole Anton talar um í lok greinarinnar, Gleðigönguna og að hann þekki hinsegin fólk.
„Vegna orða Ole – sem þó þekkir „góða og gegna menn sem eru hinsegin“ – um skak, rúnk og hömlulitla kynferðislega tilburði strípaðra þátttakenda í „skrúðgöngu hinseginfólks [sic]“ hef ég eitt að segja: Gleðiganga Hinsegin daga er ekki skrúðganga. Hún er ganga gleði og samstöðu en fyrst og síðast er hún kröfuganga fyrir sýnileika og réttindum. Þátttakendur koma svo sínum boðskap á framfæri með eigin nefi – hvort sem er klæddir kraftgalla eða berir að ofan.“