Íslenskur maður var handtekinn á laugardaginn í hverfinu Skärholmen í Stokkhólmi, en hann er grunaður um að hafa frelsissvipt konu í þrjá daga, nauðgað henni og beitt hana grófu ofbeldi. Fyrst var greint frá málinu í sænska miðlinum Expressen.
Þar er haft eftir heimildum að það hafi verið vegfarandi sem gerði lögreglu viðvart en hann hafði samband við lögreglu eftir að hann sá konuna blóðuga á svölum fjölbýlishúss í Skärholmen. Lögregla mætti á svæðið og ruddist inn í íbúðina. Maðurinn reyndi þá að komast undan í gegnum glugga en var handtekinn af lögreglu.
Maðurinn er sakaður um að hafa beitt konuna grófu ógeðfelldu ofbeldi, meðal annars á hann að hafa brennt hana með sígarettum, traðkað á hálsi hennar og nauðgað á þessum þremur dögum sem hann frelsissvipti hana.
RÚV greindi frá málinu í morgun en samkvæmt heimildum þeirra ólst maðurinn upp í Svíþjóð þrátt fyrir að vera með íslenskan ríkisborgararétt. Hann hafi tvisvar áður setið inni í Svíþjóð fyrir nauðgun og lauk um fjögurra ára afplánun fangelsisdóm á síðasta ári.
Árið 2009 hafi maðurinn verið dæmdur fyrir ítrekað og gróft kynferðisofbeldi gegn þáverandi sambýliskonu í Svíþjóð. Hann hafi reynt að halda því fram í vörn sinni að um gróft kynlíf hafi verið að ræða með samþykki, en dómari tók þá skýringu ekki gilda.
Árið 2017 var hann aftur sakfelldur fyrir ofbeldi – þá fyrir að beita konu sína ítrekuðu heimilisofbeldi, meðal annars a meðan hún var barnshafandi, einnig á meðan hún var með barnið á brjósti og svo á meðan hún var að veita honum munngælur. Hafi maðurinn hótað því að barnið yrði fyrir ofbeldi ef konan kæmi ekki í veg fyrir grát þess, en hann hafi einnig ítrekað hótað henni ofbeldi fyrir minnstu sakir.
Samkvæmt frétt RÚV getur ríkislögreglustjóri ekki veitt upplýsingar um hvort aðstoðarbeiðni hafi borist frá sænskum lögregluyfirvöldum vegna málsins og borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins hafi ekki fengið formlega beiðni um aðstoð vegna málsins.