fbpx
Sunnudagur 02.febrúar 2025
Fréttir

Beitti kærustu „sérlega grófu og ófyrirleitnu“ ofbeldi – Réðist svo aftur að henni í viðurvist barns

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 24. ágúst 2022 16:44

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Karlmaður var í júlí dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir ítrekuð brot gegn kærustu sinni í Héraðsdómi Reykjavíkur, en dómurinn var fyrst birtur á vefsíðu dómstóla í dag.

Þrátt fyrir að maðurinn hafi játað brot sín er dómurinn nokkuð ítarlegur hvað varðar heimfærslu brota til refsiákvæða og um ákvörðun refsinga en slíku er ekki oft fyrir að fara í játningarmálum. Eins var ákært fyrir ákvæði hegningarlaga sem fjallar um heimilisofbeldi, eða brot í nánu sambandi eins og það er kallað í lögunum. Dómari hafnaði því í báðum tilvikum að ákvæðið ætti við, en fyrir því veitti dómari tvær ólíkar ástæður.

Fékk heilahristing og fjölda áverka eftir atlöguna

Manninum var í ákæru gert að að hafa árið 2020 veist að þáverandi kærustu sinni með ofbeldi á heimili hennar. Þá hafi hann tekið hana hálstaki í nokkur skipti þannig hún hafi átt erfitt með andardrátt, slegið hana ítrekað í andlitið með flötum lófa og krepptum hnefa í líkama – þar á meðal í höfuð og andlit og sparkað í hana víðs vegar um líkamann.

Af atlögunni hafi konan hlotið sár á höfði, yfirborðsáverka í kringum augu, yfirborðsáverka á vörum, mar á nefi, mar á hálsi, heilahristing, mar og yfirborðsáverka á baki, mar á handleggjum, mar á þumlu, mar og yfirborðsáverka á læri og mar á fótleggjum.

Brotið framið í viðurvist barns

Eins var honum gert að sök í ákæru að hafa níu mánuðum síðar aftur veist að konunni á heimili þeirra. Þá hafi hann ýtt henni upp að skáp og slegið hana að minnsta kosti einu sinni í andlit með krepptum hnefa, að barnungri dóttur hennar viðstaddri. Hafi konan við þetta hlotið mar og eymsli á vinstri upphandlegg og glóðarauga á vinstra auga.

Ekki nákomin fyrst en svo nákomin en brotið ekki nægilega alvarlegt

Maðurinn játaði skýlaust brotin. Hins vegar gerði hann athugasemdir við að brotin væru heimfærð undir ákvæði almennra hegningarlaga sem fjalla um ofbeldi gegn nákomnum, sem í daglegu tali er kallað heimilisofbeldi. Hann og konan hafi ekki verið í sambúð þegar atvik máls áttu sér stað.

Dómari hafnaði því hvað bæði brotin varðaði að ákvæði um brot gegn nákomnum ætti við, en rökin voru ólík fyrir hvort brot fyrir sig.

Dómari leit til þess að þegar fyrra brotið átti sér stað hafi maðurinn og konan verið í kynferðislegu sambandi um nokkra mánaða skeið. Þau hafi þó ekki búið saman. Þau hafi hætt saman í um tvær vikur eftir fyrra brotið en aftur tekið saman. Dómari taldi að þarna gæti ekki átt við ákvæði um ofbeldi gegn nákomnum. Hins vegar hefði atlagan verið með slíkum hætti að heimfæra bæri háttsemina undir ákvæði sem fjallar um alvarlegar líkamsárásir.

„Að mati dómsins telst brot ákærða vera sérlega hættulegt, án tillits til áverka, ekki síst vegna framangreindra aðferðar sem ákærði beitti ítrekað meðan á atlögu gegn brotaþola stóð.“ 

Varðandi seinna brotið var talið ljóst að þar hafi þau verið komin í sambúð og því óumdeilanlegt að ákvæði um brot gegn nákomnum gæti átt við. Hins vegar taldi dómari að ofbeldið í því tilviki hafi ekki verið með þeim hætti að það næði alvarleikastiginu sem þurfi fyrir beitingu ákvæðisins. Því var ákærði samfelldur fyrir líkamsárás í því tilviki.

Sérlega gróft og ófyrirleitið

Við ákvörðun refsingar leit dómari á sakaferil ákærða sem nær allt aftur til ársins 2013. Hann hafi meðal annars verið fundinn sekur um fíkniefnalagabrot, umferðarlagabrot og ofbeldisbrot. Hann var árið 2018 dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir brot gegn nákomnum. Síðan aftur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás sama ár. Árið 2020 hafi hann verið dæmdur í 11 mánaða fangelsi fyrir umferðarlagabrot, en með brotinu hafði hann rofið skilyrði skilorðs og gerð refsing i einu lagi fyrir öll brotin.

„Ákærði hefur samkvæmt þessu ítrekað gerst sekur um ofbeldisbrot og horfir það til þyngingar,“ segir í dómnum.

Í dóminum má finna nokkuð ítarlega yfirferð um hvað dómari leit á við ákvörðun refsingar mannsins. Dómari leit til þess að ákærði hafi verið fundinn sekur um brot gegn kærustu og síðar sambýliskonu sinni. Það auki á grófleika verknaðar.

„Brot ákærða gegn brotaþola voru alvarleg og brot hans samkvæmt 1. lið ákæru sérlega gróft og ófyrirleitið. Þá var brot ákærða samkvæmt 2. lið ákæru framið í viðurvist barns. Þá var ásetningur ákærða í báðum tilvikum einbeittur.“ 

Ekki komin reynsla á úthald ákærða

Hins vegar hafi maðurinn játað brot sín. Hann hafi glímt við fíknivanda um langt skeið en bein tengsl séu milli neyslu hans og brotanna.

„Kveðst hann iðrast gjörða sinna og hafa leitað leiða til þess að bæta ráð sitt. Fyrir liggja gögn sem sýna að ákærði hefur nú þegar greitt brotaþola miskabætur. Enn fremur liggja frammi vottorð sem sýna að ákærði hefur staðið sig vel í núverandi afplánun og þá sérstaklega við að taka á fíknivanda sínum. Dómurinn lítur framangreint jákvæðum augum.“ 

Þó verði ekki litið hjá því að ekki sé komin reynsla á úthald ákærða í edrúmennskunni og því ekki tilefni til að milda refsingu hans á þeim grundvelli. Dómari taldi eins að ákærði þyrfti aðstoð á fleiri en einu sviði til að koma í veg fyrir að hann brjóti af sér með áþekkum hætti að nýju.

„Hjá því verður hins vegar ekki litið að ekki er komin slík reynsla á úthald ákærða í þessum efnum að efni sé til að milda refsingu hans með tillit til þess, svo sem með skilorðsbindingu að hluta og sérskilyrðum. Hins vegar telur dómurinn augljóst að ákærði þarfnast aðstoðar á fleiri en einu sviði til þess að brot sem þessi endurtaki sig ekki. Verður að telja æskilegt að ákærði sæki sér sérhæfða aðstoð, svo sem hjá sálfræðihópi Taktu skrefið eða Heimilisfriði, að afplánun lokinni“. 

Hér má lesa dóminn í heild sinni

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósleiðari rofnað í tvígang í Húnavatnssýslum á skömmum tíma – Þungar áhyggjur

Ljósleiðari rofnað í tvígang í Húnavatnssýslum á skömmum tíma – Þungar áhyggjur
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kynferðisbrotamaður sleppur með skilorð eftir að móðir og stjúpfaðir brotaþola létu hendur skipta

Kynferðisbrotamaður sleppur með skilorð eftir að móðir og stjúpfaðir brotaþola létu hendur skipta
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir að Inga Sæland þurfi að passa sig: „Derringur er sjaldnast af hinu góða“

Segir að Inga Sæland þurfi að passa sig: „Derringur er sjaldnast af hinu góða“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ætla ekki að gera úrbætur á hættulegu hringtorgi þar sem keyrt var á átta ára dreng

Ætla ekki að gera úrbætur á hættulegu hringtorgi þar sem keyrt var á átta ára dreng