Þann 25. ágúst næstkomandi mun hurð indverska veitingastaðarins Hraðlestarinnar loka á Lækjargötunni eftir 10 ára rekstur í húsnæðinu. Greint er frá þessu í færslu á Facebook-síðu Hraðlestarinnar.
„Við fluttum inn árið 2012 eftir umfangsmiklar endurbætur á húsinu. Á þessum áratug höfum við fylgst með hátíðarhöldum, maraþonhlaupurum, nýstúdentum og ferðamönnum fyrir utan gluggann. Á þessum áratug höfum við boðið vegfarendum að gægjast inn í menningarheim Indlands. Við höfum séð götuna opna og lokaða, tóma á tímum samkomutakmarkana og nú iðandi af lífi á ný.“
Þá segir í færslunni að á síðastliðnum áratug hefur Hraðlestarfjölskyldan breyst, kröfur viðskiptavina þróast og að skylda veitingastaðarins sé að þróast með. „Okkar markmið er og verður að þjóna tryggum gestum eins og best verður á kosið.“
Örvæntingafullir íbúar miðbæjarins sem eru reglulega svangir í indverskan mat frá staðnum þurfa þó ekki að örvænta þar sem áfram verður opið á Hraðlestinni á Hverfisgötunni. „Við höldum áfram að afgreiða svanga í miðborginni á nýuppgerðum stað á Hverfisgötunni, þar sem við hófum rekstur fyrir 19 árum síðan. Við bjóðum ykkur velkomin þangað nú í hádeginu á virkum dögum (frá og með 26.ágúst) og öll kvöld,“ segir í færslunni.
Að lokum þakkar Hraðlestin fyrir síðustu 10 árin. „Við kveðjum Lækjargötuna með tár í auga en bros á vör og hlökkum til að sjá á hvaða áfangastað Hraðlestin lendir næst.“