Rannsókn lögreglu á innflutningi á miklu magni af fíkniefnum miðar vel, segir í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en lögregla lagði hald á tæplega 100 kg af kókaíni sem var falið í vörusendingu til landsins á dögunum, en fyrst var greint frá málinu fyrir viku síðan.
Í tilkynningu segir jafnframt að fíkniefnin hafi verið í gámi á leið til Íslands frá Brasilíu með viðkomu í Hollandi og hafið lögreglan hér á landi átt í náinni samvinnu við hollensk löggæsluyfirvöld vegna málsins.
Fíkniefnin fundust í Hollandi við leit tollvarða í timbursendingu en grundvöllur leitarinnar voru upplýsingar frá íslensku lögreglunni, sem byggðu á frumkvæðisrannsóknum á skipulagðri brotastarfsemi, en lögreglan hafði ástæðu til að ætla mikið magn kókaíns væri að finna í gámnum.
Eftir að fíkniefnin fundust var gerviefnum komið fyrir í gámnum. Einn maður hafi svo verið handtekinn eftir að hafa fjarlægt gerviefnin úr vörusendingunni hér á Íslandi. Þar að auki voru þrír aðrir handteknir sem eru taldir tengjast málinu. Allir hafi verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald sem hafi nýlega verið framlengt til 14. september fyrir þrjá sakborninganna en einn hafi verið færður í afplánun vegna annarra mála.
Með tilkynningu lögreglu fylgdu myndir af kókaíninu sem fannst í Hollandi.