Flugfélagið Play mun á næsta ári hefja flug til Dulles flugvallar í Washingtonborg. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flugfélaginu.
Fyrir flýgur félagið til Boston, New York og Baltimore/Washington International flugvallar, sem bæði þjónustar Baltimore og Washingtonborg. Dulles er þó umtalsvert nær og býður upp á töluvert fleiri tengimöguleika til annarra áfangastaða í Bandaríkjunum, Mið- og Suður Ameríku.
Miðasala til Dulles er þegar farin í gang en fyrst flugið þangað verður 26. apríl 2023. Flogið verður alla daga vikunnar.
Í tilkynningunni segir að þessi viðbót komi til vegna mikillar eftirspurnar, sérstaklega meðal tengifarþega. Því var ákveðið að styrkja stöðu Play á svæðinu.
Í samtali við DV segir Birgir Jónsson flugfélagið vissulega vera að horfa á tengifarþega, en leggurinn hafi líka lagst vel í Íslendinga. „Við erum fyrst og fremst að horfa á tengifarþeganna en Íslendingar hafa tekið vel í þetta svæði. Þetta er alveg frábær borg, frábær matarmenning og menning almennt. Á sumrin er svo frábært veður þarna. Við erum því mjög bjartsýn á framhald Play í Washington D.C.“
Nadine Guðrún Yaghi, samskiptastjóri Play tekur undir orð Birgis og segir Washington hennar uppáhaldsborg í Bandaríkjunum. „Þar höfum við hina fullkomnu blöndu af „alvöru“ borg en í viðráðanlegri stærð. Hún hentar vel í helgarferðir, matarferðir, leikhúsferðir, verslunarferðir, barnaferðir, fjölskylduferðir, sem upphafsstaður góðs road trips og svo framvegis og framvegis,“ segir Nadine. „Saga Washingtonborgar sem höfuðborg Bandaríkjanna gerir hana svo enn fremur að einhverjum áhugaverðasta áfangastað í Bandaríkjunum,“ bætir hún við og bendir á að borgin liggi á milli norður- og suðurríkjanna og sé því að mörgu leiti á milli tveggja menningarheima. „Á tímum þrælahalds í Bandaríkjunum var borgin til að mynda fyrsti frjálsi áfangastaður þeirra sem flúðu harðræðið í Suðurríkjunum, og ber borgin þess merki í dag, til dæmis með öflugum Jazz og Blues rótum,“ segir hún að lokum.
Miðað við óformlega leit blaðamanns að flugum til Washington Dulles International á heimasíðu flugfélagsins, má sjá að hægt er að bóka flug þangað fyrir um 31 þúsund krónur báðar leiðir, án farangursheimildar.