Þetta segir Kristín Björg Kristjánsdóttir, íbúi í Grafarvoginum, sem lenti í þeim hryllingi að taka á móti blóðugri kisunni sinni fyrir utan heimilið sitt. Kristín brunaði beinustu leið með köttinn Snata, sem var 8 ára gamall, upp á dýraspítalann í Víðidal en dýralæknirinn sem tók á móti þeim telur að áverkarnir séu af völdum hunda.
„Þetta var hryllileg árás með miklum áverkum sem ekki var hægt að laga. Yndislegi kisinn okkar fór glaður út, en endaði með að draga sig upp á aðra hæð til okkar með sundurrifna mænu og hrygg,“ segir Kristín í færslu sem hún birti í Facebook-hóp sem tileinkaður er íslenskum kattaaðdáendum. „Eins og er höfum við labbað um hverfið en ekkert fundið nema litla blóðslóð sem vísaði aðeins niður tröppurnar. Við bíðum eftir öskunni hans til að jarða, krakkarnir hafa valið fallegt hjartalaga box fyrir hann og það sem þau eru að taka þessu eins og hetjur þó erfitt sé.“
Kristín lýsir því nánar í samtali við DV hvernig þau komu að kettinum eftir árásina. „Hefði dóttir mín ekki heyrt hann mjálma fyrir utan þá hefðum við ekkert vitað af honum. Hann einhvern veginn náði að staulast inn og dóttir mín tekur eftir því að það er eitthvað að bakinu á honum, það er rosalega flatt og hann dregur skottið eftir jörðinni. Svo sjáum við blóðslóð og að honum líður illa,“ segir hún.
„Ég hélt að það hefði verið keyrt á hann svo við keyrum með hann upp á dýraspítalann í Víðidal. Hann fór strax á morfín og fór í röntgen. Það var svo hringt í mig tveimur tímum síðar og mér var sagt að þetta væri örugglega ekki bílslys, þetta væri líklegast hundaárás – það var búið að rífa hrygginn hans í sundur. Bæði mænan og hryggurinn voru bókstaflega slitin í sundur.“
Kristín fékk að fá röntgen myndina sem tekin var af Snata til öryggis, ef svo ólíklega vildi til að hún kæmist að því hvað gerðist nákvæmlega. „Maður hefur heyrt ýmsar sögur af árásum þar sem kettir eru bitnir og þeir koma heim með stór sár, deyja kannski af völdum sýkingu eða eitthvað svoleiðis,“ segir hún.
Hægt er að sjá röntgen myndina neðst í fréttinni en viðkvæmir lesendur eru þó varaðir við henni.
„En minn átti bara ekki séns. Læknirinn segir að það hafi þurft stóran og sterkan hund til að gera þetta því kötturinn minn var stór og feitur, hann var ekki léttur. Það hefur þurft að rífa hann upp og hrista hann alveg rækilega til þess að valda þessum áverkum.“
Kristín segir að hún hafi fengið skilaboð í kjölfar þess sem hún birti færsluna en hún er þó engu nær um það hvað nákvæmlega gerðist eða þá hver var að verki. „Ég tók hring um hverfið til að athuga hvort einhver heyrði eitthvað eða vissi eitthvað en það kom ekkert úr því,“ segir hún.
Þá segir hún að fjölskyldan sé í molum. „Þetta hefði kannski verið allt öðruvísi lífsreynsla ef hann hefði verið að deyja úr veikindum eða elli því þá hefðum við verið að taka út sorgina við greininguna á því, við náttúrulega bjuggumst aldrei við þessu. Við erum svo vön rútínunni með kettinum, við komum heim, hann tekur á móti okkur og biður um klapp. Hann var eins og annað barn hjá okkur, þetta er eins og að missa fjölskyldumeðlim,“ segir hún.
„Krakkarnir mínir eru sterkari en ég, þau syrgja en eru ekki eins mikið grátandi og við fullorðna fólkið, við erum ennþá bara hágrátandi. Við rétt náum að halda höfði fram yfir vinnudaginn og svo bara springum við.“
Ef einhver kannast við atvikið og hefur nánari upplýsingar má endilega hafa samband við kristinbjorg91@gmail.com