Feðginin höfðu tekið þátt í viðburði um kvöldið og ætluðu að aka saman heim. Á síðustu stundu skipti Alexander um skoðun og ákvað að þau skyldu aka í sitt hvorum bílnum. Því má leiða líkum að því að sprengjan hafi verið ætluð honum en ekki dóttur hans. Hún var þekkt fréttakona og studdi innrásina í Úkraínu einarðlega.
Í greiningu, sem Will Vernon, fréttamaður BBC í Moskvu hefur skrifað um málið segir hann að tilræðið hafi valdið ólgu meðal rússneskra embættismanna og gert þá taugaóstyrk. Þetta grafi einnig undan áróðursmaskínu Kreml.
Rússneskir ríkisfjölmiðlar segja að sprengjan hafi verið ætluð Alexander Dugin. Vernon segir að að þrátt fyrir að hann sé ekki embættismaður sé hann táknræn persóna í rússneskum stjórnmálum. Meðal annars vegna andstöðu hans við Vesturlönd og öfgaþjóðernishyggju. Öfgaþjóðernishyggjan, sem hann boði, sé orðið hin ráðandi pólitíska hugmyndafræði í Rússlandi og hafi átt þátt í að móta útþenslustefnu Pútíns sem hafi verið mest áberandi í Úkraínu.
Vernon segir að sprengjutilræðið valdi skjálfta í Moskvu: „Atburðir af þessu tagi gera embættismenn í Moskvu taugaóstyrka, sérstaklega í ljósi fjölda sprenginga og árása á hinn hernumda Krímskaga og á rússneskum svæðum nærri úkraínsku landamærunum.“
Hann segir að sprengingin grafi einnig undan áróðursmaskínu Kreml sem geri mikið úr því að segja Rússum að Pútín hafi komið á öryggi og jafnvægi í Rússlandi eftir óróleikatímabil á tíunda áratugnum þegar bílsprengjur og morðtilræði voru algeng. Bílsprengja í Moskvu grafi undan þessari frásögn þeirra.
The Guardian segir að margir stuðningsmenn ráðamanna í Kreml hafi nú þegar kennt Úkraínumönnum um sprengjutilræðið og krafist hefnda. Úkraínumenn þvertaka fyrir að hafa komið að málinu og segja að Úkraína sé ekki hryðjuverkaríki eins og Rússland og beiti ekki aðferðum af þessu tagi.