Árásarmaðurinn, sem skaut einstakling til bana á Blönduósí í morgun, var handtekinn af lögreglu fyrr í sumar. Hafði maðurinn í hótunum við heimilisfólk í húsinu þar sem ódæðið átti sér stað í nótt og var hann handtekinn með skotvopn í fórum sínum. Vísir greindi fyrst frá þessu atriði málsins en manninum var síðar sleppt úr haldi.
Þá herma heimildir að hegðun mannsins hafi verið undarleg um nokkurt skeið og hann hafi verið vistaður á geðdeild fyrir skömmu.
Árásarmaðurinn er á 36. aldursári. Hann hefur mikla reynslu af skotvopnum og hefur áralanga reynslu af keppni í skotfimi. Rétt er að geta þess að hann hefur þó ekki keppt í greininni í nokkur ár og er ekki skráður í neitt skotfélag.
Samkvæmt heimildum DV vann hann um skeið fyrir fyrirtæki sem húsráðandi, þar sem harmleikurinn átti sér stað, stýrði. Hann hefur hinn síðari ár verið í sjálfstæðum rekstri á Blönduósi.
Í fréttatilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi vestra kemur fram að tilkynning hafi borist lögreglu um kl.5.30 um að skotvopni hafi verið beitt gegn tveimur einstaklingum í heimashúsi í bænum og að um alvarlegt tilvik hafi verið að ræða. Lögregla hafi vopnast áður en haldið var í útkallið en tekið er fram að vopnum var ekki beitt. Í ljós kom að skotvopni hafði verið beitt gegn tveimur einstaklingum, þar sem einn var látinn og annar særður. Aukinheldur fannst meintur gerandi skotárásarinnar einnig látinn á vettvangi. Í framhaldi að hlúð var að hinum slasaða og vettvangur tryggður var lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra gert viðvart um málið en rannsókn sakamálsins er í höndum hans.
Gert er ráð fyrir annarri fréttatilkynningu kl.18 í dag.