Hátekjublað Stundarinnar er komið út en í því eru teknar saman heildarskattgreiðslur ríkasta 1% landsins, það er að segja skatta af mánaðarlaunum og fjármagnstekjum viðkomandi ólíkt öðrum tekjublöðum sem greina aðeins frá mánaðarlaununum valinna einstaklinga.
Í úttekt blaðsins kemur fram að af 100 hæstu skattgreiðendunum voru aðeins 12 konur og var sú sem greiddi hæstu skattana í 20. sæti listans, Kristín Guðríður Jóhannsdóttir. Hún seldi hlut sinn í útgerðarfélaginu Steinunni á árinu en en flestir hæstu skattgreiðendurnir í ár tengjast sjávarútveginum með einhverjum hætti, þar af fjórir af hæstu fimm greiðendunum.
Fimm efstu á listanum yfir hæstu skattgreiðendur ársins voru eftirfarandi:
- Björn Erlingur Jónasson – greiddi alls 692 milljónir í skatt af heildartekjum upp á um 3,14 milljarða króna. Seldi útgerðafélagið Valafell á síðasta ári til KG fiskverkunnar.
- Sævald Pálsson – greiddi alls 686 milljónir í skatt af heildartekjum upp á um 3,12 milljarða króna. Seldi útgerðarfélagið Berg til Berg – Hugins í Vestmannaeyjum.
- Ingibergur Þorgeirsson – greiddi um 680 milljónir í skatt af heildartekjum upp á um 3,1 milljarð króna. Seldi hlut sinn í Nesfisk.
- Ketill Gunnarsson – greiddi um 445 milljónir í skatt af heildartekjum upp á ríflega 2 milljarða króna. Seldi hlut sinn í Noom Inc. sem er utan um samnefnt lífstílsapp.
- Gylfi Viðar Gunnarsson – greiddi um 403 milljónir í skatt af heildartekjum upp á um 1,84 milljarða króna. Seldi hlut sinn í útgerðarfélaginu Huginn til Síldarvinnslunnar.
Nánar er fjallað um skatttekjur ríkustu Íslendinganna á vef Stundarinnar.