Ísdrottningin Ásdís Rán Gunnarsdóttir, er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar. Í þættinum segir Ásdís meðal annars frá upphafi viðskiptaferils síns:
„Ég hef verið viðloðandi viðskipti frá því að ég var 17-18 ára gömul. Þá byrjaði ég að sjá um alls konar viðburði og síðan stofnaði ég fyrirsætuskrifstofu út frá því. Það var alltaf mikill eldmóður í mér og hausinn á mér er oft að springa úr hugmyndum. Ég man að ég keppti í keppni um viðskiptaáætlanir þegar ég var 16 ára hjá Iðntæknistofnun og ég hringdi í viðskiptafólk og bað um fundi hingað og þangað. Ég fann alveg að fólk virti mig fyrir hugrekkið og mér var yfirleitt tekið vel,“segir Ásdís, sem hefur um árabil verið á milli tannanna á fólki á Íslandi. Hún segist aldrei meðvitað hafa gert í því að vera umdeild á Íslandi. Hún telur að það stafi meira af því að hún segi skoðanir sínar umbúðalaust,
Í þættinum segir Ásdís einnig sögur af lífi sínu í Búlgaríu, eftir að hún flutti þangað:
„Garðar Gunnlaugsson (fyrrverandi maður Ásdísar) fékk samning hjá CSKA Sofia og fótboltamennirnir eru algjörar stórstjörnur þarna, þannig að fjölmiðlarnir fengu strax áhuga á mér. Það var til svo mikið af myndum og greinum um mig að það fór strax að veltast um í gulu pressunni. Ég sá fyrir mér að ég yrði fótboltaeiginkona með börn og myndi lifa rólegu lífi, en það breyttist hratt. Það gerðist eiginlega bara á einni nóttu að ég byrjaði að fá mikla athygli og gat búið mér til minn eigin feril. Ég fékk strax vel borgað fyrir verkefnin sem ég fékk og þetta var eiginlega bara draumur í dós. Það getur verið sérstakt að umgangast þekkt og ríkt fólk í Austur-Evrópu. Brynvarðir bílar, límósínur, demantar og lífverðir eru bara eðlilegur hlutur fyrir fólk sem á peninga í Búlgaríu og þetta er oft skrautlegt, en líka mjög skemmtilegt. Ég elska Búlgaríu og hefur alltaf liðið vel þarna. Ég var meðtekin af samfélaginu strax og hef alltaf upplifað velvild frá fólki.“
Ein besta vinkona Ásdísar í Búlgaríu, Ruja Ignatova, hvarf sporlaust árið 2017, eftir að hafa tengst fjársvikamáli sem vakti heimsathygli. Ruja og Ásdís voru mjög góðar vinkonur allt þar til hún hvarf:
„Hún fjárfesti í fyrsta fyrirtækinu mínu í Búlgaríu. Hún var alltaf vel stæð, en undir það síðasta var hún orðin milljarðamæringur. Ég var með henni síðustu tvo mánuðina áður en hún hvarf. Þá vorum við mest við Svartahafið, þar sem hún var með risastóra snekkju. Ég fann undir það síðasta að hún var orðin mjög skrýtin og slæm í skapinu. Ég hélt að hún væri bara orðin þunglynd og buguð af álagi, en grunaði ekki hvað var í vændum. Hún var orðin mjög vör um sig og óttaðist að það væri fólk á eftir henni, en ég hélt að það væri bara af því að hún var orðin svo rosalega rík og í Austur- Evrópu eru miklu meiri hættur fyrir ríkt fólk. En svo lætur hún sig bara hverfa og ég hef ekkert heyrt frá henni síðan, né nokkur annar í kringum hana. Ég vil trúa því að hún sé á lífi, en auðvitað er það mjög ólíklegt.“
Ásdís er núna komin til Íslands eftir að hafa meira og minna búið erlendis í mörg ár:
,,Dóttir mín vildi koma til Íslands, hún sá alla jafnaldra sína miklu frjálsari hér í gegnum samfélagsmiðla og ég fann að hún vildi fara og mér fannst ég ekki geta annað en farið heim tímabundið. Það voru búnar að vera harðar Covid-reglur í Búlgaríu og skólarnir meira og minna í gegnum netið í tvö ár. Hún er mjög glöð að vera hér, en ég á alltaf svolítið erfitt með að vera bara á Íslandi. Þó að landið sé frábært, þá er eitthvað sem veldur því að ég er ekki alveg búin að aðlagast eftir allan þennan tíma úti.”