Lögfræðingurinn Sævar Þór Jónsson setur spurningamerki við skilvirkni hins opinbera kerfis á Íslandi og segist hafa efasemdir um hvernig sá frumskógur virki fyrir almenna borgara. Í aðsendri grein á Vísi lýsir hann dæmi þar sem ráðþrota maður leitaði eftir þjónustu hans til að glíma við kerfið og hafði sigur að lokum eftir að hafa lent í því sem Sævar kallar, „geðþóttaákvörðun embættismanna.“ Hann segir að ef umrætt smál sé dæmigerð fyrir málsmeðferð stjórnvalda þá sé augljóst að fólk getur ekki leitað til stjórnsýslunnar án liðsinnis lögmanns. „ Þá má líka spyrja sig hvernig jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins er framfylgt því ofangreint dæmi gefur það til kynna að þeir sem hafa úthaldið og burði til að kaupa sér þjónustu lögmanna fá betri afgreiðslu á endanum. Er þetta kerfið sem við viljum hafa?,“ spyr Sævar Þór.
Í stuttu máli snýst umrætt mál um að skjólstæðingur Sævars var tekinn fyrir ölvunarakstur árið 2018 en málinu lauk ekki fyrr en í janúar 2020, vegna tafa hjá lögreglu, með sektargerð. Þann 1. janúar 2020 gengu í gegn ný lög sem kváðu á um það fólk sem ætlaði að sækja um ökuréttindi að nýju þyrfti fyrst að sitja sérstakt námskeið hjá Samgöngustofu. Brotið hafði þó átt sér stað þegar eldri lög voru í gildi og því freistaði umræddur aðili þess að fá staðfestingu á því þess þyrfti ekki. Það var þó þrautinni þyngri og eftir að hafa komið að lokuðum dyrum hjá fjölmörgum stofnunum, og verið sendur ítrekað á milli þeirra, þá ákvað maðurinn að leita til lögmanns.
Í greinni segir Sævar frá því hvernig að þá hafi erfitt ferli hafist sem að ólíklegt er að skjólstæðingur hans hefði haft burði til að ljúka án lögfræðiaðstoðar. Formleg neitun Samgöngustofu var kærð til Innviðaráðuneytisins og í kjölfarið kvörtun send til Umboðsmanns Alþingis. Að endingu höfðu þeir sigur og ljóst var að embættismenn í Samgöngustofu höfðu tekið geðþóttákvörðun sem að átti sér ekki stoð í neinum lögum.