Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka Iðnaðarins fá vel greitt fyrir að gæta hagsmuna öflugustu fyrirtækja landsins. Þau eru öll með mánaðarlaun um 3,7 milljónir.
Bæði Heiðrún Lind og Halldór Benjamín lækka í launum milli ára. Heiðrún Lind var með 4 milljónir í mánaðarlaun árið 2021 en Halldór Benjamín með um 4,3 milljónir á mánuði. Sigurður hækkar þó milli ára en hann var með 3,3 milljónir á mánuði í fyrra.
Til samanburðar eru helstu talsmenn launþega með mun lægri laun. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, er með um 1,8 milljón á mánuði, Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands var með rúmlega 1,3 milljónir og Drífa Snædal, fráfarandi forseti ASÍ, um 1,2 milljónir á mánuði. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar var með rétt rúma milljón í tekjur á síðasta ári en hún hætti sem formaður Eflingar í lok október á síðasta ári en var síðan kosin að nýju í vor.
DV mun í samstarfi við Fréttablaðið birta fréttir úr álagningarskrá Ríkisskattstjóra í dag og næstu daga.
Heiðrún Lind Marteinsdóttir | frkvstj. SFS | 3.724.207 |
Sigurður Hannesson | frkvstjóri Samtaka iðnaðarins | 3.680.072 |
Halldór Benjamín Þorbergsson | framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins | 3.671.408 |
Ragnar Þór Ingólfsson | formaður VR | 1.755.366 |
Vilhjálmur Birgisson | form. Verkalýðsfélags Akraness | 1.334.626 |
Drífa Snædal | fráfarandi forseti ASÍ | 1.155.242 |
Sólveig Anna Jónsdóttir | formaður Eflingar | 1.040.064 |