Á sunnudaginn færðust Úkraínumenn einu skrefi nær því að geta einangrað rússneskar hersveitir í Kherson frá öðrum rússneskum hersveitum þegar þeir eyðilögðu mikilvæga brú við Nova Kakhovka stífluna.
Jacob Kaarsbo, greinandi hjá hugveitunni Tænketanken Europa, sagði í samtali við TV2 að árásirnar að undanförnu séu staðfesting á því að Úkraínumenn séu að reyna að ná Kherson og Krímskaga aftur á sitt vald. Þeir reyni að hæfa skotmörk langt fyrir aftan víglínuna, langt inni á rússnesku yfirráðasvæði, eins og þeir gerðu með svo góðum árangri í Kyiv í byrjun stríðsins. Þeir ráðist á birgðalínur Rússa sem byggist mjög á flutningum með járnbrautarlestum. Sprengiefnageymslurnar, sem kviknaði í á þriðjudaginn, séu einmitt við járnbrautarteina.
Hann sagði að líklega hafi úkraínskar sérsveitir gert árás á skotfærageymslurnar á þriðjudaginn því ekki sé nein ummerki eftir flugskeyti að sjá á myndum af vettvangi.
Kaarsbo hefur frá upphafi stríðsins sagt að Rússar geti ekki unnið það og segist standa við þá fullyrðingu. Nú standi Rússar frammi fyrir ákveðnum spurningum í ljósi síðustu árása Úkraínumanna.