Ákæra gegn 65 ára gömlum ítölskum karlmanni var á dögunum þingfest í Héraðsdómi Reykjaness, en honum er gert stórfellt fíkniefnalagabrot að sök með því að hafa flutt til landsins tæpt kíló af kókaíni falið í niðursuðudósum. Mun maðurinn hafa komið kókaíninu fyrir þar og í ferðatöskum sem hann hafði meðferðis í flugi FI-555 frá Brussel í Belgíu til Íslands í apríl á þessu ári.
Karlmaðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald og dvelur hann nú í fangelsinu á Hólmsheiði.
Sem fyrr segir hefur málið þegar verið þingfest í héraðsdómi og fer nú sína hefðbundnu leið þar. Verði maðurinn fundinn sekur má hann búast við óskilorðsbundnum fangelsisdómi til viðbótar við tímann sem hann hefur þegar dvalið í gæsluvarðhaldi.
Saksóknarar krefjast þess að manninum verði gert að sæta refsingu og greiðslu alls sakarkostnaðar.