Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, ber höfuð og herðar yfir forstjóra skráðu íslensku fyrirtækjanna. Árni Oddur var með rúma 41 milljón króna í mánaðarlaun í fyrra samkvæmt álagningaskrá Ríkisskattstjóra sem lögð hefur verið fram. Rétt er að geta þess að fjármagnstekjur forstjóranna eru ekki inn í þessari tölu heldur berstrípuð mánaðarlaun. Þá geta forstjórarnir verið að fá laun frá öðrum fyrirtækjum að auki. Það gildir augljóslega um Árna Odd sem var með mánaðarlaun upp á rúmar 11,1 milljón króna frá Marel samkvæmt ársreikningi fyrirtækisins en hann hefur hagsmuni víða í íslensku atvinnulífi.
Margrét B. Tryggvadóttir, forstjóri Nova, er í öðru sæti forstjóralistans með um 9,3 milljónir króna á mánuði en Finnur Oddsson, forstjóri Haga, hlýtur bronsverðlaunin með rúmar 7 milljónir króna mánuði.
Aðrir forstjórar eru með mánaðarlaun frá 5,4 milljónum króna og niður í 3,4 milljónir. Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, er launahæstur íslensku bankastjóranna með rúmar 4,5 milljónir króna – rúmum 300 þúsund krónum meira en Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels, fékk greiddar samtals 935 þúsund evrur, jafnvirði um 133 milljónir íslenskra króna á gengi dagsins í dag, í laun, hlunnindi og kaupaaukagreiðslur á árinu 2021. Það jafngildir mánaðarlaunum upp á tæplega 11,1 milljónir króna.
DV mun í samstarfi við Fréttablaðið skrifa upp netfréttir úr álagningaskrá Ríkisskattstjóra sem munu birtast í dag og næstu daga.
Hér fyrir neðan má sjá listann yfir forstjóranna:
Árni Oddur Þórðarson | forstjóri Marel | 41.057.472 |
Margrét B. Tryggvadóttir | forstjóri NOVA | 9.303.181 |
Finnur Oddsson | forstjóri Haga | 7.025.788 |
Orri Hauksson | forstjóri Símans | 5.392.160 |
Bogi Nils Bogason | forstjóri Icelandair Group | 5.297.867 |
Andri Þór Guðmundsson | forstjóri Ölgerðarinnar | 4.631.421 |
Helgi Bjarnason | forstjóri VÍS | 4.552.382 |
Benedikt Gíslason | bankastjóri Arion banka | 4.513.057 |
Gunnþór Björn Ingvason | forstjóri Síldarvinnslunnar | 4.441.081 |
Eggert Þór Kristófersson | fyrrv. forstjóri Festi | 4.425.873 |
Jón Björnsson | forstjóri Origo | 4.378.642 |
Heiðar Guðjónsson | fjárfestir og fyrrv. forstjóri Sýnar | 4.259.825 |
Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason | forstjóri SKEL fjárfestingafélags | 4.230.731 |
Birna Einarsdóttir | bankastjóri Íslandsbanka | 4.213.606 |
Hermann Björnsson | forstjóri Sjóvár | 4.167.463 |
Marinó Örn Tryggvason | forstjóri Kviku banka | 3.990.432 |
Guðmundur Kristjánsson | forstjóri Brim | 3.501.219 |
Helgi S. Gunnarsson | forstjóri Reginn fasteignafélags | 3.485.456 |
Guðjón Auðunsson | forstjóri Reita | 3.463.473 |
Bjarni Ármannsson | forstjóri Iceland Seafood International | 3.420.894 |
Garðar Hannes Friðjónsson | forstjóri Eik fasteignafélags | 3.275.101 |