Aðalmeðferð í máli héraðssaksóknara gegn Daníel Zambrana Aquilar, 23 ára, og Raúl Ríos Rueda, 25 ára, fór fram í gær en þeir voru ákærðir fyrir tilraun til manndráps eftir hrottafengna árás á annan mann í mars síðastliðnum fyrir utan skemmtistaðinn 203 Club við Austurstræti. DV sagði frá málinu í vor.
Mennirnir eru í ákærunni sagðir hafa ráðist að ætluðu fórnarlambi þeirra með ítrekuðum höggum og óþekktu stunguvopni, líklega skrúfjárni. Mun brotaþoli hafa hlotið samfall á báðum lungum, sár víða um líkama og aðra yfirborðsáverka á höfði, að því er fram kemur í ákæru sem DV hefur undir höndum.
Málið vakti óhug þegar það kom upp, en móðir brotaþola í málinu sagði frá því opinberlega á samfélagsmiðlum að enginn hefði komið syni henni til bjargar er ráðist var á hann. Sagði hún dyraverði á staðnum hafa fylgst með árásinni og að drengurinn hafi sjálfur þurft að koma sér að sjúkrabíl og óska þar eftir hjálp.
Aðalmeðferðin í málinu stóð yfir í heilan dag í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær og voru samkvæmt upplýsingum DV um 15 vitni kölluð til. Voru þar á meðal sjónarvottar að árásinni, læknar og meðferðaraðilar auk viðbragðsaðila.
Dómari hefur nú fjórar vikur til þess að kveða upp dóm, en fordæmi eru fyrir þungum dómum í samskonar málum. Verði mennirnir fundnir sekir gætu þeir þannig átt von á nokkurra ára fangelsisdómi hið minnsta.