Tveir drengir slösuðust í gærkvöldi eftir að heimatilbúin sprengja, búin til úr flugeldum, sprakk nálægt þeim. Drengirnir þurftu báðir að leita sér aðhlynningar á sjúkrastofnun vegna minniháttar meiðsla en þeir brenndust báðir í andliti auk þess sem annar brenndist einnig á hendi. Í samtali við DV staðfestir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, að slíkt atvik hafi átt sér stað en lögregla muni ekki tjá sig um málið að svo stöddu.
Atvikið átti sér stað um kl.9.30 í gær í Reykjanesbæ en samkvæmt heimildum DV grýtti skólafélagi sprengjunni að drengjunum tveimur með þeim afleiðingum að þeir slösuðust. Drengirnir eru allir á tólfta aldursári en ekki liggur fyrir hvort um gáleysi eða ásetning hafi verið að ræða.
Málið er í rannsókn og er komið í farveg hjá viðeigandi stofnunum.