Óhapp var um borð í Herjólfi í gærkvöldi þegar bílalyfta ferjunnar var sett niður fyrir slysni á leið til Vestmannaeyja í síðustu ferð dagsins. Eyjar.net greindu fyrst frá en þar er haft eftir Herði Orra Grettissyni, framkvæmdastjóra Herjólfs, að skipið hafi verið að bakka frá bryggju í Landeyjarhöfn þegar að bílalyftan hafi farið niður öðrumegin og tveir bílar kramist undir henni. Starfsmaður hafi rekist í takka í brú skipsins með þessum afleiðingum. Kemur fram að enginn farþegi hafi verið staddur á bíladekkinu þegar slysið átti sér stað og því hafi blessunarlega engin slys orðið á fólki.
Eigendur gæludýra sem að ferðast reglulega með fjórfætta ástvini sína í ferjunni hugsa þó með hryllingi til þess ef að dýr hefði verið í umræddum bílum. Félaga dýravina í Vestmannaeyjum, sem var stofnaði í mars á þessu ári, hefur brugðist við með því að efna til undirskriftasöfnunar þar sem þess er krafist að aðstaða dýra verði stórlega bætt í Herjólfi. „Það er algjörlega óásættanlegt með öllu að dýrin séu geymd í bílnum eða í geymslu á meðan á siglingu stendur,“ segir í áskoruninni sem að tæplega 750 manns hafa skrifað undir þegar þessi frétt er skrifuð.
Þóra Gísladóttir, formaður áðurnefnd félags, segist vonast til þess að undirskriftalistinn knýi á nauðsynlegar breytingar. Þetta er auðvitað galin aðstaða sem gæludýrum er boðið uppá í Herjólfi ef aðstöðu skyldi kalla,“ segir Þóra. Reglurnar hafa verið þannig að dýr eiga að vera í bílunum. Svo er kompa á bíladekkinu sem hægt er að hafa dýr í ef þau eru í búrum en um hitakompu er að ræða sem sé óásættanlegur geymlustaður fyrir gæludýr.
Hún bendir á að blessunarlega hafi engin manneskja verið stödd á bíladekkinu en það sem ekki hafi komið fram er að einn hundur var fastur inni í nærliggjandi bíl, aleinn og fjarri eigendum sínum þegar slysið átti sér stað.
„Þessi hundur á ekki eftir að geta farið í óbreyttum aðstæðum með Herjólfi aftur. Og við dýraeigendur eigum ekki eftir að taka það í mál að skilja dýrin okkar eftir,“ segir Þóra. Nú sé kominn tími til breytinga og slysið sé áminning um það.
Það sem Þóra segist vilja sá sé afmarkað svæði í Herjólfi þar sem farþegar gætu setið með dýrið í beisli eða búri.
Að hennar sögn hafi forsvarsmenn félagsins rætt við framkvæmdastjóra Herjólfs um að aðstaðan sé ekki boðleg og sent fjölmarga pósta um hvort að ekki sé kominn tími á breytingar. Ekkert hafi þó lagast og bendir til þess að áhugi sé ekki til staðar. Þá hafi félagsmenn einnig fundað með Írisi Róbertsdóttur, bæjarstjóra Vestmannaeyjarbæjar, til þess að reyna að koma málinu á skrið en þrátt fyrir góðar viðtökur hafi ekkert gerst.
„Við finnum alveg gríðarlegan stuðning og meðbyr frá fólki um að þetta séu nauðsynlegar breytingar. Okkur hefur borist ógrynni af reynslusögum frá fólki þar sem það lýsir því hvernig dýrin hafa komið stressuð og óróleg eftir sjóferðina,“ segir Þóra. Hún segir að þrjú dæmi séu um að kettir hafi dáið um borð eða þegar verið sé að aka frá borði og ástæðan sé sennilega stress eða hræðsla. „Það hefði ekki gerst ef að þeir hefðu fengið að vera með eigendum sínum,“ segir Þóra.
Þá hafi líka borist póstar frá fólki sem hafi hætt að koma til Eyja vegna þess að það leggi ekki í að skilja hundana sína eftir á bíldekkinu á meðan ferðalaginu til Eyja stendur sem sé afar sorglegt.
Hér má nálgast undirskriftalista Félags dýravina í Eyjum.