Lögreglan hafði afskipti af tveimur aðilum sem voru með innkaupakerrur fullar af dósum í austurhluta borgarinnar. Þeir höfðu brotið læsingu á dósagámi sem Skátarnir eru með og tæmt hann. Lögreglan lagði hald á dósirnar og innkaupakerrurnar. Aðilarnir voru lausir að skýrslutöku lokinni.
Við Rauðavatn kom upp eldur í gróðri. Slökkvilið slökkti hann.
Á þriðju hæð í fjölbýlishúsi í vesturhluta borgarinnar gleymdi íbúi að hann var að láta renna í bað og flæddi vatn því úr baðkarinu og lak niður á næstu hæð. Slökkvilið kom á vettvang og hreinsaði vatnið upp.
Í Hlíðahverfi var brotist inn í fyrirtæki og peningakassa stolið. Þjófurinn fannst skömmu síðar og var handtekinn og dvelur nú í fangaklefa.
Í Háaleitis- og Bústaðahverfi var brotist inn í verslun. Innbrotsþjófurinn reyndi að forða sér á hlaupum en fótfráir lögreglumenn hlupu hann uppi og handtóku. Hann dvelur í fangageymslu.
Tveir voru handteknir grunaðir um þjófnað á reiðhjólum. Þeir voru látnir lausir að skýrslutöku lokinni.
Tveir ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur á Stekkjarbakka. Einn ökumaður var kærður fyrir að akstur þrátt fyrir að hann hafi aldrei öðlast ökuréttindi. Hann framvísaði fölsuðu ökuskírteini sem hald var lagt á. Annar var kærður fyrir að aka sviptur ökuréttindum en um ítrekað brot var að ræða hjá viðkomandi.