Þegar Ísak Finnbogason var að streyma drónaskotum af eldgosinu í Merardölum á YouTube í gær tók hann eftir fólki sem var hættulega nálægt hraunflæðinu. Ísak telur að um ferðamenn hafi verið að ræða en fólkið stóð á nýju hrauni, rétt hjá glóandi hrauninu.
Vísir fjallaði um málið og ræddi við Ísak sem segist hafa ákveðið að reyna að láta fólkið vita að þau væru í hættu með drónanum. Hann flaug drónanum því nálægt fólkinu svo þau myndu sjá hann. Fólkið sá svo drónann og fór skömmu síðar af hrauninu. Þar sem dróninn er appelsínugulur á litinn telur Ísak að það sé mögulegt að fólkið hafi haldið að hann væri á vegum björgunarsveita eða einhverra opinberra aðila.
Ísak birti klippuna sem hann náði af fólkinu á YouTube-síðu sinni í gær. „Klikkaðir túristar reyna að láta nýja eldgosið á Íslandi drepa sig,“ segir í heiti myndbandsins á YouTube en rúmlega 10 þúsund manns hafa séð myndbandið. Mikill fjöldi fólks þakkar Ísaki í athugasemdunum fyrir að hafa látið fólkið fara af hrauninu.
Hann hefur birt fleiri myndir frá gosstöðvum sem má skoða á YouTube-síðu hans eða með því að smella hér. Hann heldur einnig úti Instagram-síðunni Iceland.FPV en FPV stendur fyrir first person view.